Flýta öryggisleitinni á Kastrup

Langflestir farþegar á flugvellinum í Kaupmannahöfn kjósa að innrita sig sjálfir í flugið og nú geta þeir tekið fyrstu skrefin í öryggisleitinni óstuddir. Farþegar á Keflavíkurflugvelli eru ekki eins sjálfstæðir ef svo má segja.

Að jafnaði þurfa flugfarþegar að bíða í þrjá mínútur við vopnaleitina á Kastrup í Kaupmannahöfn. Forsvarsmenn danska flugvallarins ætla sér að stytta meðalbiðina enn frekar með því að láta farþega sjálfa skanna brottfararspjöld sín í stað þess að rétta öryggisvörðum þau.

Í tilkynningu frá flugvellinum segir að í dag kjósi þrír af hverjum fjórum að innrita sig í flug án aðstoðar. Samkvæmt upplýsingum Túrista þá velur rúmur helmingur farþega Icelandair að tékka sig sjálfa inn í flug frá Íslandi, annað hvort í sjálfsafgreiðslustöðvum á Leifsstöð eða á netinu. Wow air býður ekki upp á sjálfsinnritun í Keflavík en gerir það hins vegar í Kaupmannahöfn.

Í ár stendur til að fjölga sjálfsafgreiðslustöðvum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og það mun væntanlega verða til þess að fleiri farþegar muni sjálfir sjá um að tékka sig inn. Það styttist þá kannski í að forsvarsmenn Keflavíkurflugvallar taki upp nýjustu tækni líkt og þeir í Kaupmannahöfn.

TENGDAR GREINAR: Hætta að skoða alla skó á Keflavíkurflugvelli

Mynd: Ernst Tobisch/CPH