Framboð á flugi til London tvöfaldast

Í febrúar var flogið héðan til höfuðborgar Bretlands tuttugu og sex sinnum í viku. Á næstunni munu Icelandair, Wow Air og Easy Jet bæta við enn fleiri ferðum þangað.

Í byrjun næsta árs verður flogið milli Íslands og London allt að sex sinnum á dag. Samtals verða flugin þrjátíu og sjö á viku. Þetta eru nærri tvisvar sinnum fleiri brottfarir en voru í boði á sama tíma í fyrra, áður en Easy Jet bætti Íslandi við leiðakerfi sitt. Þá voru ferðirnar nítján á viku, fjórtán á vegum Icelandair og fimm hjá Iceland Express.

Wow fer úr sjö í tólf

Upphaflega flaug Easy Jet hingað þrisvar í viku frá London en nýlega bætti félagið við fjórðu brottförinni. Í byrjun næsta árs ætlar félagið að fljúga héðan til Lundúna alla daga nema laugardaga. Icelandair bætir bráðlega við þremur ferðum í viðbót til Gatwick flugvallar og flýgur þá fimm sinnum þangað og fjórtán sinnum til Heathrow. Wow Air stefnir á stóraukin umsvif á þessari flugleið næsta vetur með tólf flugferðum á viku en undanfarna mánuði hafa þær verið sjö eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.

Til London feb. 2013 Til London feb. 2014 Aukning
Easy Jet 3 ferðir í viku 6 ferðir í viku 100%
Icelandair 16 ferðir í viku 19 ferðir í viku 18,8%
Wow Air 7 ferðir í viku 12 ferðir í viku 71,4%
Samtals 26 ferðir í viku 37 ferðir í viku 42,3%

Miklu fleiri Bretar

Í febrúar sl. flugu tæplega sextán þúsund Bretar frá Keflavíkurflugvelli samkvæmt tölum frá Ferðamálastofu. Fjölgaði þeim um nærri helming frá sama tíma í fyrra. Gera má ráð fyrir að í síðasta mánuði hafi verið um 23 þúsund flugsæti í boði en í febrúar á næsta ári verða flugsætin um 32 þúsund, ef miðað er við stærð meðalfarþegaþotu. Það er því næsta víst að breskum ferðamönnum þarf áfram að fjölga hratt hér á landi og áhugi Íslendinga á heimsóknum til Bretlands verður líka að aukast ef fylla á þessi sæti. Þó ber að hafa í huga að hluti þeirra sem fljúga með Icelandair, til og frá Bretlandi, millilendir aðeins hér á leið sinni til N-Ameríku.

Fylgstu með Túrista á Facebook

HÓTEL: Smelltu og gerðu verðsamanburð á hótelum út um allan heim
BÍLALEIGUBÍLAR: Rentalcars lofar góðum kjörum
NÝJAR GREINAR: Easy Jet fjölgar ferðum og áfangastöðum