Heimila hnífa, kylfur og kjuða í farþegarýminu

Einhverjum kylfingum kann að þykja erfitt að fylgja reglunum og setja nýja driverinn á farangursbandið í flugstöðinni í stað þess að taka hann með sem handfarangur. Vestanhafs á hins vegar að afnema bann við þess háttar íþróttabúnaði í farþegarýminu og heimila vasahnífa.

Flugfarþegar í Evrópu mega bera hníf svo lengi sem blaðið er ekki lengra en sex sentimetrar. Það er hins vegar bannað að taka skíðastafi, billjardkjuða eða golfkylfur með sér í farþegarýmið.

Í Bandaríkjunum hafa vasahnífar hins vegar lengi verið á bannlista en frá og með 25. apríl ætla yfirvöld þar í landi að leyfa þá í handfarangri. Einnig verður heimilt að hafa hjá sér tvær golfkylfur, litlar hafnaboltakylfur, skíðastafi og kjuða. Evrópusambandið heldur hins vegar fast í bann við þess háttar íþróttaútbúnaði í farþegarýminu því samkvæmt upplýsingum frá Flugmálastjórn Íslands þá er ekki vitað til að von sé á breytingum á bannlistanum en þar á bæ verður fylgst með framgangi málsins.

Á næstu síðu má sjá hvernig hnífa og íþróttabúnað má taka með sér í flug í Bandaríkjunum. Ekki er ljós hvort reglurnar gilda einnig fyrir þá sem fljúga frá Bandaríkjunum til Evrópu.

Fylgstu með Túrista á Facebook

TENGDAR GREINAR: Hætta að skoða alla skó á Keflavíkurflugvelli

Myndir: TSA