Keflavíkurflugvöllur sá fjórði besti í Evrópu

Fyrir fjórum árum var flugvöllurinn í Keflavík valinn sá besti í Evrópu og árið 2011 var hann sá fremsti af þeim minni. Í ár komst hann ekki á verðlaunapall.

Það hefur varla framhjá farþegum í Leifsstöð síðustu ár að Keflavíkurflugvöllur hlaut flest stig allra flugvalla í Evrópu í þjónustukönnun alþjóðlegu samtakanna Airports Council International (ACI) árið 2009 og 2011. Víða um flugstöðina hefur mátt sjá plaköt og sjónvarpsauglýsingar þar sem árangrinum er hampað. Nýlega voru kynntar niðurstöður könnunar síðasta árs og það var Sheremetyevo flugstöðin í Moskvu sem fékk gullið. Silfrið fór til Möltu og sá í Edinborg fékk bronsið. Keflavík endaði fjórða sæti og Zurich í því fimmta samkvæmt fréttatilkynningu ACI.

Bæta þjónustuna

Rúmlega tvö hundruð flugstöðvar taka þátt í könnuninni og eru að minnsta kosti 1400 farþegar spurðir út í þjónustuna á hverjum flugvelli fyrir sig. Það eru því farþegarnir sjálfir sem ráða niðurstöðunni.

Eins og Túristi hefur margoft bent á þá var eftirlit með skóm á Keflavíkurflugvelli lengi vel strangara hér en þekkist í Evrópu og Bandaríkjunum. Allir farþegar, líka börn og gamalmenni, þurftu að fara úr skóm við vopnaleit öfugt við það sem gengur og gerist annars staðar. Í byrjun árs var slakað á reglunum sem mun sennilega skila sér í hærri einkunn Keflavíkurflugvallar því samkvæmt bandarískum könnunum þá hafa farþegar vestanhafs meiri andstyggð á skóeftirliti í flughöfnum en að láta öryggisvörð leita á sér eða þurfa að stíga inn í líkamsskanna. Þrír af hverjum fjórum lesendum Túrista töldu líka reglurnar hér of strangar þegar viðhorf þeirra var kannað síðastliðið sumar.

Þetta eru ekki einu breytingarnar því bráðum verður boðið upp á frítt netsamband í Leifsstöð. En eins og fjallað var um hér á síðunni nýverið þarf fólk ekki að borga fyrir aðgang að neti á meira en 80 norrænum flugvöllum. Sá íslenski fetar því fljótlega í fótspor flugstöðva frændþjóðanna.

VILTU 10% AFSLÁTT AF GISTINGU Í PARÍS?

TENGDAR GREINAR: Keflavíkurflugvöllur komst á lista þeirra 100 stærstu í Evrópu

Mynd: Isavia