Nærri fimmtíu ferðir á dag í júlí

Í júlí nær flugumferð til og frá landinu hámarki. Fimmtán félög bjóða þá upp á áætlunarferðir til útlanda.

Þeir sem ætla til útlanda í júlí geta valið úr 326 brottförum á viku eða 47 á dag frá Keflavík. Það eru fimmtán félög sem skipta þessum áætlunarferðum á milli sín. Icelandair er langstærst með 219 ferðir eða tvær af hverjum þremur samkvæmt talningu Túrista.

Um fimmtíu og fimm þúsund flugsæti verða í boði í hverji viku mánaðarins ef miðað er við meðalstærð farþegaþota.

Tveir nýliðar

Af þeim tólf erlendu félögum sem fljúga hingað í sumar hafa Vueling og Thomas Cook ekki áður lagt leið sína til Íslands. Það fyrrnefnda flýgur til Barcelona og Thomas Cook til Brussel. Erlendu fyrirtækin standa fyrir sjöttu hverji brottför. Flest þeirra fókusa á næturflug héðan en líkt og áður hefur komið fram hér á síðunni þá fjölgaði brottförum á fyrstu tímum sólarhringsins um nærri þriðjung í júlí í fyrra.

Wow fyllir næstum því skarð Iceland Express

Brottfarir á vegum Iceland Express voru 36 á viku í júlí í fyrra og á sama tíma fór Wow Air að jafnaði tuttugu ferðir. Næstkomandi júlí mun Wow fljúga frá Keflavíkurflugvelli fimmtíu sinnum á viku og vantar því aðeins sex ferðir til að fljúga jafn oft og félögin gerðu í sitthvoru lagi í fyrra. Hins vegar voru 180 sæti í leiguvélum Iceland Express en þau eru 168 hjá Wow. Framboð sameinaðs félags hefur því dregist saman um nærri 1440 sæti á viku yfir háannatímann. En Wow, eitt og sér, hefur aukið vægi sitt á Keflavíkurflugvelli úr 6,4 í 15,3 prósent.

Vægi fimm stærstu félaganna á Keflavíkurflugvelli í júlí nk.:

  1. Icelandair 67,2%
  2. Wow air 15,3%
  3. Airberlin 3,7%
  4. EasyJet: 2,5%
  5. Lufthansa: 2,2%

SMELLTU TIL AÐ SJÁ HVERJIR FLJÚGA HVERT Í SUMAR

TILBOÐ: Viltu frían morgunmat í Kaupmannahöfn?

Mynd: Isavia