Ódýrasta farið út um páskana

Miðað við þau háu fargjöld sem eru í boði um páskana þá eru fá sæti eftir í vélunum sem halda af landi brott á fimmtudaginn. Túristi fann þó tvær ferðir sem eru í ódýrari kantinum.

Það eru sennilega margir sem væru til í að skreppa út yfir páskana. Gallinn er bara sá að farmiðar eru almennt mjög dýrir þegar bókað er með svona stuttum fyrirvara. Það er þó ljós í myrkrinu því það er hægt að komast til Írlands og Skotlands yfir hátíðirnar án þess þó að borga hátt í hundrað þúsund krónur fyrir skutlið yfir hafið. Svo heppilega vill líka til að bæði Dublin og Edinborg þykja með ódýrari ferðamannaborgum Evrópu og þar er ennþá hægt að finna ódýra gistingu.

Dublin

Heimaborg Guinness ölsins og popparanna í U2 hefur lengi lokkað til sín ferðalanga í leit að smá upplyftingu. Á fimmtudaginn fer vél á vegum ferðaskrifstofunnar Vita til Írlands og kostar farið 39.900 krónur. Heimferðin er fjórum dögum síðar.
Með hótelleitarvél Túrista geturðu fundið ódýra gistingu í Dublin um páskana.

Edinborg

Easy Jet fór sína fyrstu ferð milli Keflavíkur og höfuðborgar Skota á fimmtudaginn síðasta. Breska lággjaldaflugfélagið mun fljúga milli Íslands og Skotlands tvisvar á viku næstu mánuði og þeir sem bóka ferð til Edinborgar í dag og heim aftur mánudaginn 1. apríl fá sætin á 42.659 krónur. Lesendur Túrista fá 10% afslátt af gistingu í Edinborg (sjá hér).

NÝJAR GREINAR: Keflavíkurflugvöllur sá fjórði besti í Evrópu

Mynd: VisitScotland/ScottishViewpoint