Röð þeirra stærstu á Keflavíkurflugvelli

Átta af hverjum tíu brottförum frá Keflavíkurflugvelli í febrúar voru á vegum Icelandair. Alls sjö félög héldu uppi millilandaflugi frá vellinum.

Farþegaþotur fóru í loftið frá Keflavík tæplega fimm hundruð sinnum í febrúar. Þar af voru ferðir Icelandair 383 en Wow air var næst umsvifamest með 58 ferðir.

Þessi tvö félög voru með níutíu prósent af öllum brottförum í síðasta mánuði.

Icelandair fór 334 ferðir í febrúar í fyrra samkvæmt upplýsingum úr ferðagagnabanka Túrista og hefur því aukið umsvifin um tæp 15 prósent milli ára.

Easy Jet hóf nýverið að fljúga hingað frá Manchester og undir lok þessa mánaðar bætist Edinborg við. Breska félagið verður þar með tíðari gestur á Keflavíkurflugvelli en SAS sem flýgur hingað frá Osló og hefur verið stærst erlendu félaganna hér á landi.

Fleiri farþegar

Í febrúar í fyrra voru það Icelandair, Iceland Express og SAS sem sáu um millilandsflugið og nú hafa Easy Jet og Norwegian bæst við auk þess sem Primera Air býður upp á vikulegar ferðir til Oslóar og Air Greenland flaug eina ferð í mánuðinum. Samtals voru ferðirnar því á vegum sjö flugfélaga.

Þessi aukna umferð skilaði sér í 23,5 prósent fleiri farþegum í febrúar en á sama tíma í fyrra samkvæmt tilkynningu frá Isavia.

Í vetur hefur verið flogið héðan beint til 30 áfangastaða í N-Ameríku og Evrópu en í sumar verða borgirnar 44 eins og sjá má á þessu korti Túrista.

Hlutdeild félaganna á Keflavíkurflugvelli í brottförum talið:

  1. Icelandair – 78,81%
  2. Wow air – 11,93%
  3. Easy Jet – 3,7%
  4. SAS – 2,88%
  5. Norwegian – 2,45%
  6. Primera Air – 0,62%
  7. Air Greenland – 0,21%

VILTU 10% AFSLÁTT Á HÓTELI Í PARÍS?

BÍLALEIGUBÍLL: Rentalcars lofar lægsta verðinu

Mynd: Isavia