SAS leggur niður viðskiptafarrýmið

Flugfarþegar í Skandinavíu vilja ódýr sæti og stærsta flugfélag Norðurlanda ætlar því að hætta að ganga í augun á þeim sem vilja borga meira fyrir farið.

SAS var fyrst evrópskra flugfélaga til að bjóða upp á sérstakt viðskiptafarrými. Það var fyrir 21 ári síðan og í dag er eftirspurnin eftir dýrustu sætunum um borð ekkert á við það sem hún hefur verið. Forsvarsmenn SAS hafa því ákveðið að hætta að bjóða upp á breið sæti og meiri þjónustu fremst í vélum sínum frá og með sumrinu. Þó aðeins innan Evrópu og því getur fólk enn borgað fyrir meira pláss þegar flogið er til Asíu og Ameríku.

Norwegian aðalkeppinautirinn

Sjö af hverjum tíu kílómetrum sem SAS flýgur eru á leið milli evrópskra áfangastaða. Í sextíu prósent tilvika etur félagið kappi við norska lággjaldaflugfélagið Norwegian í flugi sínu innan álfunnar samkvæmt því sem haft er eftir forstjóra félagsins í dönsku pressunni í dag. Hann segir samkeppnina við lággjaldaflugfélög vera helstu áskorun SAS og það sé ein af ástæðunum fyrir því að félagið láti viðskiptafarrýmið niður falla.

Einfaldari verðskrá

Í dag er boðið upp á þrjá verðflokka í vélum SAS en eftir breytingar verða þeir aðeins tveir, SAS Go og SAS Plus. Sá fyrri er ódýrari og þar verða farþegar að borga fyrir matinn sinn en fá áfram ferðapunkta. Þeir sem kaupa Plus miða fá tvöfalda punkta, sveigjanlegri miða, aðgang að betri stofum flugstöðva og komast hraðar í gegnum öryggisleit.

Bæði SAS og Norwegian fljúga frá Keflavík til Oslóar allt árið um kring ásamt Icelandair. Í gær kannaði Túristi verð á flugi til borgarinnar í apríl og júní. Norwegian var ódýrast í apríl en Icelandair í júní.

TENGDAR GREINAR: Fargjöld hafa lítið breyst frá því í fyrra

Mynd: SAS

Fylgstu með Túrista á Facebook

HÓTEL: VILTU 10% AFSLÁTT Á GISTINGU Í PARÍS?