Sjarmatröllið í Denver sem Starbucks á ekkert í

Við rómuðustu götuna í Denver er aðeins tveggja mínútna labb milli kaffihúsanna Starbucks og The Market. Túristi mælir hiklaust með heimsókn á það síðarnefnda.

Ljósaskilti Starbucks eru áberandi þegar gengið er um miðborg Denver. Það eru því vafalítið margir ferðamenn sem fara þangað í kaffi enda er það ágætt bragðið og netið er jú frítt. En útibú Starbucks eru öll eins og það er því lítil upplifun að setjast inn á þannig stað.

Heimsókn á The Market er hins vegar minnistæð. Þar er bakkelsið bakað á staðnum, kaffið er ljómandi og stemningin heimilisleg því flestir gestirnir virðast vera fastakúnnar. Fólk heilsast, spjallar og tekur jafnvel túrista tali.

The Market er reyndar meira en bara kaffihús og bakarí því þar er hægt að fá sér hressingu langt fram á kvöld. Á góðum degi er tilvalið að sitja fyrir utan og fá Larimer Street, þekktustu götu miðborgarinnar, beint í æð en hún er sneisafull af sérverslunum, matsölustöðum og börum.

Og ef frítt netsamband er ástæðan fyrir því að þú ætlar inn á Starbucks þá má bæta því við að gestir The Market komast líka á netið án endurgjalds.

TENGDAR GREINAR: Borg í góðum tengslum við náttúruna

Mynd: Túristi