Spænskur laugardagur í Kringlunni

Gestir Kringlunnar geta kynnst sér það sem hæst ber í spænskri ferðaþjónustu á laugardaginn.

Á veturna eru það Kanaríeyjar sem laða til sín íslenska ferðamenn og á sumrin er flogið héðan beint til Alicante, Barcelona og Madridar á meginlandinu. Straumurinn milli Íslands og Spánar er það mikill að Vueling, stærsta lággjaldaflugfélag Spánar, hefur áætlunarflug hingað í sumar.

Á laugardaginn heldur ferðamálaráð landsins kynningu í Kringlunni á því sem Spánn hefur fram að færa. Þetta er í sjötta sinn sem ferðamálaráð Spánar stendur fyrir spænskum ferðadegi á Íslandi. Marianela Rojas hjá ferðamálaráðinu segir að Spánn hafi um árabil verið einn vinsælasti áfangastaður íslenskra ferðalanga, hvort heldur þeir hafa áhuga á menningu, náttúru, matargerðarlist eða sólarströndum. „Okkur þykir ánægjulegt að koma til Íslands og kynna spænska ferðaþjónustu, þar sem möguleikarnir eru fjölbreyttir og skemmtilegir. Íslendingar hafa fjölmennt á kynningarnar síðustu ár og verið áhugasamir að skoða og kynna sér úrval ferðamöguleika,“ segir hún í tilkynningu.

Spænski ferðadagurinn verður haldinn á Blómatorgi Kringlunnar og hefst klukkan 11. Boðið verður upp á fjölbreytt skemmtiatriði, eitthvað gott að borða og ferðagetraun.

Hér sérðu hver flýgur hvert á Spáni.

NÝJAR GREINAR: Til Kanarí um páskana fyrir minna en 100 þúsund.

Mynd: Turismo Canarias