Tugprósenta munur á töxtum íslensku símafyrirtækjanna í Bandaríkjunum

Íslenskir túristar borga allir það sama fyrir símnotkun þegar ferðast er innan Evrópska efnahagssvæðisins. Öðru máli gegnir um þá sem nota símann sinn í Bandaríkjunum því íslensku símafélögin rukka mismunandi mikið fyrir þjónustu sína þar eins og verðkönnun Túrista leiðir í ljós.

Evrópusambandið hefur þvingað niður símakostnað milli EES-landanna síðustu ár með því að setja stiglækkandi hámarksverð á símnotkun. Þann fyrsta júlí sl. lækkaði til að mynda mínútuverðið úr 73 krónum niður í 60,9 kr. fyrir símtöl frá ESB svæðinu til Íslands. Samkvæmt athugun Túrista á verðskrá íslenskra, danskra og breskra símafyrirtækja þá notast öll félögin við þetta hámarksverð og engin býður lægra verð nema keyptir séu sérstakir áskriftapakkar.

Mínútan á tæpar 400 krónur vestanhafs

Á meðan íslenskur ferðamaður í Evrópu borgar rúmar sextíu krónur fyrir mínútuna þegar hann hringir heim þarf sá sem er í Bandaríkjunum að greiða að minnsta kosti 334 krónur. Það er Nova sem er með lægsta mínútuverðið en það er hæst hjá Vodafone eða 371 króna. Það er því um sex sinnum dýrara að hringja með íslenska símanum vestanhafs en í Evrópu. Munurinn er álíka þegar litið er til kostnaðar við að senda SMS heim því í Evrópu kostar skeytið 18,9 krónur en allt að 95 kr. frá Bandaríkjunum eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.

Mikill verðmunur á gagnanotkun

Það eru margir sem vilja deila utanlandsferðinni með fólkinu heima og setja því myndir inn á Facebook eða Instagram. Það kostar sitt en þó mismunandi mikið eftir því við hvaða símafélag viðkomandi skiptir. Sá sem er með númer frá Nova borgar þannig 835 krónur fyrir hvert megabæti en Tal kúnninn 2890 krónur. Tal er hins vegar ódýrasti kosturinn ef hringt er í þig til útlanda því ef þú svarar borgarðu 94,44 krónur fyrir mínútuna á meðan viðskiptavinur Vodafone borgar 371 kr. Hjá Símanum geturðu hins vegar sloppið með mínútugjald upp á 83,23 krónur en við gjaldið gæti bæst viðbótarkostnaður sem nemur allt að 272 krónum á hverji mínútu. Samkvæmt upplýsingum frá Símanum lenda níu af hverjum tíu notendum sjálfkrafa á neti sem borga þarf aukalega fyrir og því þarf að velja gjaldfrjálst kerfi.

Hjá Vodafone fengustu þær upplýsingar að verðskrá fyrirtækisins varðandi símnotkun í Bandaríkjunum muni breytast um mánaðarmótin og kjörin verði ekki lakari en hjá öðrum.

Verðsamanburður á símnotkun í Bandaríkjunum:

Hringt til Íslands Móttekið símtal SMS Gagnanotkun
Nova 334 kr. mínútan 167 kr. mínútan 66,8 kr. 835 kr. á Mb.
Síminn 352,24 kr. mínútan 83,23 kr. mín + viðbót* 82,55 kr. 1490 kr. á Mb.
Tal 369,49 kr. mínútan 94,44 kr. mínútan 94,44 kr. 2690 kr. á Mb.
Vodafone 371 kr. mínútan 371 kr. mínútan 79,69 kr. 2116,98 kr á Mb.

 

 

 

* Hægt er að komst hjá viðbótargjaldi með því að velja gjaldfrjálst net (sjá hér)

Fylgstu með Túrista á Facebook

HÓTEL: VILTU 10% AFSLÁTT Á GISTINGU Í PARÍS?