Aukagjöldin hækka hratt

Flugfarþegar þurfa í auknum mæli að borga sérstaklega fyrir að innrita farangur, taka frá sæti og borga með kreditkorti. Hliðartekjur skipta flugfélögin sífellt meira máli og samkvæmt breskri könnun hækka þau þóknanir sínar töluvert milli ára.

Þeir sem fljúga frá Keflavík í sumar þurfa að borga allt að 3100 krónur fyrir að innrita tösku og gjaldið er álíka hátt fyrir að taka frá sæti með meira fótaplássi. Næsta sumar gætu þessi gjöld hafa hækkað um tugi prósenta því samkvæmt könnun vefsíðunnar TravelSupermarket hafa flugfélögin hækkað verðskrár sínar töluvert frá því í fyrra. Farangursgjald Easy Jet hefur t.d. hækkað um nærri fjórðung og British Airways tekur nærri þúsund krónum meira fyrir of þungan handfarangur í ár.

Líkt og Túristi benti á í síðustu viku þá þurfti að borga 1490 krónur fyrir sæti á fremsta bekk hjá Wow Air síðasta sumar. Núna er gjaldið 2990 krónur. Á móti kemur að önnur sæti hafa lækkað niður í 990 krónur.

Evrópusambandið vill banna handfarangursgjald

Wizz Air, eitt af stærri lággjaldaflugfélögum Evrópu rukkar nú farþega fyrir allan handfarangur sem kemst ekki undir sætin. Vestanhafs eru félög einnig farin að rukka fyrir hefðbundnar handfarangurstöskur. Þingmönnum á Evrópuþinginu líst illa á þessa þróun og vinna að reglum sem eiga að koma í veg fyrir að þessi gjaldtaka verði almenn.

TENGDAR GREINAR: Hvað kostar að taka frá ákveðið sæti?Meirihlutinn rukkar fyrir innritaðar töskur

Mynd: geishaboy500/Creative Commons: