Danir ætla að koma betur fram við ferðamenn

Danmörk fellur hratt niður listann yfir þau lönd sem laða til sín flesta ferðamenn. Síðar á árinu verður hleypt af stað átaki til að bæta þjónustulund landans.

Íslendingar þykja vinalegastir allra þjóða í garð ferðamanna samkvæmt skýrslu World Economic Forum. Frændur okkar Danir fá ekki eins góða einkunn hvað gestrisni varðar og nú sýna niðurstöður nýrra mælinga að hlutdeild landsins á ferðmannamarkaðnum í N-Evrópu hefur dregist saman um fjórðung frá aldarmótum.

Forsvarsmenn ferðaþjónustunnar í Danmörku hafa löngum kennt háu verðlagi um fækkun túrista og heimtað lægri virðisaukaskatt á gistingu og veitingum. Sérfræðingar danska blaðsins Politiken taka ekki undir þessa skýringu og benda á að ferðaþjónustan í Sviss þyki sú fremsta í heimi samkvæmt úttekt World Economic Forum. En í Sviss, líkt og í Danmörku, er dýrt að dvelja fyrir flesta ferðamenn.

Minni rembingur

Sérfræðingarnar benda á að Danir verði að bæta þjónustulundina og reyna að greina á milli þarfa ólíkra hópa ferðamanna. Taka þeir sem dæmi að í Svíþjóð er meiri hefð fyrir að veita góða þjónustu en í Danmörku. Lausnin á vandanum liggur því í að „lækka í montinu og hækka í auðmýktinni“, segir í Politiken.

Ferðmálaráð Kaupmannahafnar, í samstarfi við verkalýðsfélög og aðra hagsmunaaðila, ætlar að bregðast við þessari slæmu þróun og verja næstum tveimur árum í að fræða starfsmenn í ferðaþjónustunni um hvernig þeir geti verið gestrisnari.

NÝJAR GREINAR: Hvað kostar að bóka ákveðið sæti?
TILBOÐ: Frír morgunmatur í Kaupmannahöfn

Mynd: Denmark Media Center