Endurunninn vesturbær

zurich hundur

Túristar áttu fyrst nýverið erindi í vesturhluta Zurich og heimamenn fóru þangað bara til að vinna. Í dag er keppst um íbúðirnir á svæðinu og þetta gamla iðnaðarhverfi er að verða einn helsti viðkomustaður ferðamanna í borginni.

Á hálftíma fresti sigla bátar frá kajanum við Zurich-vatn með ferðamenn sem vilja virða fyrir sér hina laglegu miðborg frá nýju sjónarhorni. Fleyin sem ferja fólkið voru smíðuð í vesturhluta Zurich og lengra náði ekki tenging hverfisins við ferðaþjónustu borgarinnar. Í dag hefur skipasmiðjan hins vegar breytt um ham og hýsir nú stórt leikhús, tónleikastað og vinsælt veitingahús. Þessi breyting er svo vel lukkuð að hún er talin ástæða þess að þess að vesturbær Zurich hefur öðlast nýtt líf.

Stjórnleysi í Sviss

Það voru nefnilega ekki aðeins skipasmiðirnir sem létu sig hverfa því nær öll gömlu iðnaðarfyrirtækin yfirgáfu borgina. Eftir stóð mikið af ónýttu svæði og skemmum sem hafa verið endurnýttar á fjölbreyttan og frumlegan hátt síðastliðin áratug. Oft án þess að sótt hafi verið um tilskilin leyfi. Þannig opnaði einn þekktasti tískuvöruframleiðandi landsins búð í gámastæðu og einn vinsælasti matsölustaður borgarinnar, Les Halles, er til húsa í hrörlegri skemmu. Þessi ringulreið fellur ekki að ímyndinni um hina ferköntuðu Svisslendinga og það er kannski hluti af aðdráttarafli vesturbæjarins í Zurich.

Líf undir brúnni

Það er meiri röð og regla við Viadukt lestarbrúnna sem stendur á þurru landi á mörkum gamla og nýja vesturbæjarins. Á götuhæð brúarinnar er um þrjátíu verslanir, vinnustofur og veitingastaðir og við enda hennar er stór matarmarkaður með lífrænum vörum. Þetta samgöngumannvirki er í dag eitt helsta aðdráttarafl svæðisins en var áður aðeins notað til að flytja fólk og vörur í gegnum hverfið.
Hið nýja líf vesturbæjarins er rétt að hefjast og miklar framkvæmdir eru áformaðar á svæðinu næstu ár. Það er því líklegt að hverfið eigi eftir að verða skyldustopp hjá túristum í Zurich í framtíðinni líkt og bátsferðirnar eru í dag.

SJÁ VEGVÍSI FYRIR ZURICH