Farþegar með engan handfarangur fá sérmeðferð

Farangur veldur forsvarsmönnum sumra flugfélaga miklum áhyggjum og nú gerir eitt það stærsta tilraun til að fá fólk til að taka minna með sér um borð.

Meirihluti flugfélaganna sem halda uppi áætlunarflugi frá Keflavík í sumar rukkar fyrir innritaðan farangur samkvæmt athugun Túrista. Ekkert þeirra er þó farið að krefjast greiðslu fyrir handfarangur líkt og sum félög gera. Evrópusambandið reynir að koma í veg fyrir að sú þróun breiðist út.

Gefa vínið en rukka fyrir töskur

American Airlines, eitt stærsta flugfélag í heimi, gerir nú tilraunir til að takmarka handfarangurinn með því að hleypa þeim farþegum fyrst um borð sem hafa ekkert meðferðis samkvæmt frétt NBC. Farþegar á dýrari farrýmum hafa þó enn forgang en hafa bera í huga að American Airlines rukkar um 3100 krónur (25 dollara) fyrir hverja innritaða tösku. Hér er því kannski á ferðinni leið til að fá fleiri til að borga farangursgjald.

Á sama tíma og stjórnendur American Airlines reyna að takmarka handfarangurinn ætla þeir að hætta að krefjast greiðslu fyrir bjór og vín á ódýrasta farrýminu þegar flogið er milli N-Ameríku og Evrópu.

TENGDAR GREINAR: 8 af 15 rukka fyrir töskur

Mynd: geishaboy500/Creative Commons