Ferðaminningar Margrétar Gauju

Forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar hefur ferðast víða með mömmu sinni og lætur sig dreyma um Októberfest með manninum sínum. Margrét Gauja Magnúsdóttir skipar fjórða sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.

Fyrsta ferðalagið til útlanda:

Ég eyddi víst heilu sumri með foreldrum mínum á Spáni þar sem pabbi var farastjóri. Man nú lítið eftir því, hef bara séð myndir af spikfeitu barni í bleikum sundbol og í regnhlífakerru. Fyrstu sterku minningar mínar af ferðalögum erlendis eru þegar ,,Flug og bíll“ var mjög heitt fyrirbæri hjá Íslendingum og eyddum við systkinin ógrynni af klukkutímum í aftursæti bílaleigubíls á meðan Evrópa var keyrð sundur og saman. Annars er ég nú svo lánsöm að vera fædd með stálskeið í munni merkta Icelandair og hef því fengið tækifæri til að fara víða og oft með móður minni flugfreyjunni.

Það sem ég geri til að láta tímann líða hraðar í flugvélinni:

Ég kaupi alltaf Marie Claire og eina kilju í fríhöfninni og les.

Best heppnaða utanlandsferðin:

Óhætt að segja að það hafi verið ferðin til Kúbu í tilefni þess að mamma mín varð 60 ára, jólin 2011. Við söfnuðum markvisst fyrir þeirri ferð í 3 ár, héldum stífa fundi og fundargerðir og ákváðum áfangastaðinn með kynningum og svo atkvæðagreiðslu. Við vorum átta sem fórum í þessa frábæru ferð sem mun seint gleymast. Kúba er stórkostlegt land mikilla öfga og ég er mjög glöð að hafa kynnst Kúbu frá öllum hliðum og ekki skemmdi félagsskapurinn.

Tek alltaf með í fríið:

Strigaskó

Vandræðalegasta uppákoman í útlöndum:

Eitt skiptið var ég með Svölu Björgvinsdóttur vinkonu minni í Los Angeles og í flugvélinni á leið frá LA til Minneapolis vorum við vinkonurnar með hálfkæring og fórum mikinn, sögðum miður geðslegar sögur af hvor annarri og grenjuðum úr hlátri. Þegar vélin var svo lent í Minneapolis skaut sér eldri kona á milli sætanna skælbrosandi og spurði hvort við værum ekki á leið til Íslands. Við vorum frekar vandræðalegar því það sem þessi kona veit ekki í dag…

Besti maturinn sem ég hef smakkað á ferðalagi:

Ég var skiptinemi í Argentínu árið 1994 og það toppar ekkert grillaða argentíska nautasteik og argentískt rauðvín með. Ekkert.

Uppáhalds staðurinn í útlöndum:

Ég var mjög hrifin af París og þarf nauðsynlega að komast þangað aftur. Annars á Argentína hálft hjarta mitt og elska ég allt við það land.

Það sem er mikilvægast á hótelherberginu:

Rúmið og sturtan.

Draumafríið:

Að komast með eiginmanni mínum á Októberfest í Þýskalandi þar sem við ætlum að vera í Tyrolabúningum að borða snitchel og drekka bjór. Einnig eru ég og Oddur bróður minn að safna fyrir ferð til Perú, við ætlum að ganga Inkaslóðina að Maccu Picchu. En þegar maður á börn, þá dreymir mann oft um sandala, ís, sól og sundlaug, hvar sem er.