Samfélagsmiðlar

Ferðaminningar Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur

Spænskir smáréttir, sænsk jarðaber og frönsk súkkulaðikaka eru meðal þess sem Rósa Björk Brynjólfsdóttir minnist frá ferðum sínum til útlanda. Rósa Björk skipar annað sæti á lista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Suðvesturkjördæmi.

Fyrsta ferðalagið til útlanda:

Ég fór fyrst til útlanda þegar ég var 10 ára gömul. Þá fór ég með mömmu minni til Svíþjóðar, nánar tiltekið til smábæjarins Gislaved í Smálöndunum. Pabbi fór ekki með okkur, sem mér þótti leitt en hann var þá plagaður af miklum ótta við flugferðir og fór ekki til útlanda fyrr en mörgum árum seinna. Við mamma vorum að heimsækja æskuvinkonu hennar sem bjó í yndislegu, rauðu timburhúsi með hvítum gluggalistum eins og ég hafði séð í Astrid Lindgren bókunum. Ég man alltaf eftir því að þegar við keyrðum í gegnum þéttan skóginn í Smálöndunum, fékk ég yfirþyrmandi innilokunarkennd yfir því að sjá ekkert landslag. Bara tré út um allt! En þarna dvöldum við í heilar 3 vikur og í minningunni borðuðum við fersk jarðaber á hverju kvöldi sem þótti náttúrulega stórkostlegt á tímum þegar fersk jarðaber fyrirfundust ekki á Íslandi. Ég var farin að tala sænsku við krakkana í hverfinu eftir nokkra daga og mamma fór og keypti á okkur ekta sænska klossa. Þetta var mjög skemmtileg dvöl.

Best heppnaða utanlandsferðin:

Æ, ég hef farið í svo margar dásamlegar utanlandsferðir að mér þykir erfitt að gera upp á milli þeirra. En ein nýleg, frábær, ferð er ferðalag okkar Kristjáns Guy, sambýlismannsins míns, til Baskalands í ágúst 2011. Þetta var önnur utanlandsferðin okkar saman og við höfðum hvorugt komið þangað áður. Við dvöldum í San Sebastian, þeim yndislega bæ sem er með eitt fallegasta bæjarstæði sem ég man eftir. Við vorum hrædd um að það yrði ekki þverfótað fyrir ferðamönnum en sú varð ekki raunin. Mestmegnis Spánverjar og Frakkar sem komu yfir landamærin. Veðrið var gott og við fórum í sjóinn á hverjum degi en maður minn, maturinn! Yndislegir pinxtos-staðir út um allt. Við römbuðum á hverju kvöldi á milli pinxtos-staða og borðuðum frábæra pinxtos (sem er nk. stærri útgáfa af tapas-réttum) og drukkum góð vín með. Frábær stemmning og góður matur! Síðan fórum við í eplavínsframleiðslu og smökkuðum þar eplavínin sem Baskar eru frægir fyrir og fengum steik á viðarplanka með. Við þræddum svo strandlengjuna á bíl til Bilbao en við sjávarsíðuna er dásamlega falleg lítil þorp með undarlegum nöfnum og sérstæðum byggingarstíl. Þetta var rómantísk og frábær ferð um svæði sem er uppfullt af sögu Baskanna og frábærum mat.

Verst heppnaða utanlandsferðin:

Hmmm…ég man í svipinn ekki eftir neinni. Man bara eftir að hafa fengið svæsna matareitrun í Kaíró í Egyptalandi þegar ég var að vinna sem flugfreyja hjá Atlanta fyrir mörgum árum síðan. Þá vorum við að selflytja egypska kennara sem unnu í Sádí-Arabíu í frí til síns heimalands og flugum svo aftur með þá í vinnuna sína viku seinna eða svo til Jeddah eða Ryadh. Við höfðum verið vöruð við því að nánast allir fengju matareitrun í Kaíró og þrátt fyrir að passa mig, þá varð ég engin undantekning. En það var ótrúlega gaman að fá tækifæri til að vera bara 23 ára og sjá og vera í Egyptalandi.

Besta máltíðin í útlöndum:

Úff þær eru svo margar dásamlegar og eftirminnilegar enda rennur matur og ferðalög saman í eitt hjá mér og myndar minningar og upplifanir. Ég man eftir besta ratatouille sem ég hef fengið í lífinu hjá Marie, ömmu Karenar æskuvinkonu minnar sem er hálf-frönsk. Marie er spænsk en flúði borgarastyrjöldina spænsku og hefur búið í pínulitlu frönsku þorpi við Pýreneafjöllin æ síðan. Hún býr til ógleymanlegt ratatouille sem ég smakkaði fyrst þegar ég dvaldi hjá henni þegar ég var 12 ára. Svo var máltíð á frábærum veitingastað sem við römbuðum á í Bilbao ógleymanleg. Þar borðuðum við andalæri og fíkjur sem bráðnaði upp í manni. Kannski líka af því við fundum veitingastaðinn alveg óvænt.

Síðan er nýleg máltíð ógleymanleg þegar við fögnuðum fertugsafmæli Kristjáns míns nú um páskana í Gordes í Provence-héraðinu í Suður Frakklandi, einu fallegasta þorpi landsins. Þá borðuðum við lambaskanka með fersku grænmeti úr héraðinu sem voru fullkomlega eldaðir. Svo man ég líka eftir einni af mörgum frönskum súkkulaðikökum sem ég hef borðað sem var alveg einstaklega góð. Hana borðaði ég með tveimur sænskum vinum mínum þegar ég var í námi í Stendhal-háskólanum í Grenoble í Frakklandi. Við fórum á pínkulítinn veitingastað þar sem einn maður með mikið yfirvaraskegg þreif, þjónaði og eldaði. Þegar við sátum ein á veitingastaðnum og biðum eftir matnum þá rauk hann allt í einu út og við kölluðum á eftir honum hvert hann væri að fara, hann sagðist vanta brauð og kæmi rétt strax! Hann bauð okkur svo upp á einhvern frábæran pastarétt en súkkulaðikakan hans bráðnaði upp í okkur! Þegar við forvitnuðumst um uppskriftina af þessari dýrindisköku, þá benti hann okkur á kassann utan um kökuna sem hann hafði keypt í stórmarkaði og hafði tekið úr frysti fyrir okkur! Þetta sýnir að matur og stemningin myndar órjúfanleg heild.

Tek alltaf með mér í ferðalagið:

Kósýbuxur til að sofa í!

Draumafríið:

Mig langar ógurlega mikið til Indónesíu. Það er ótrúlega fallegt land og okkur dreymir um að fara þangað í langt frí. Svo væri ég líka til í að fara til Suður-Ameríku, sér í lagi til Argentínu. Afríka bíður mín líka veit ég…

 

Nýtt efni

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …