Samfélagsmiðlar

Gengið með Steinunni um Berlín

Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur tekur upp þráðinn frá því haust og býður fólki að ganga með sér um söguslóðir bóka sinna í Berlín. Steinunn sagði Túrista frá gönguferðunum, bókunum og borginni.

„Þetta byrjaði allt á því að við Júlía Björnsdóttir vorum að slæpast í Kreuzberg með vinum. Og ég fór að segja frá Ankerklause, knæpunni við kanalinn, þar sem söguhetjan mín, Martin Montag, geislalæknir, hittir fyrst Petru konuna sína, í miðju Berlínarvori. (Líklega hittast allir á þessari súper og svolítið óhrjálegu knæpu, því það kom síðar í ljós að hún er uppáhaldsstaður Quentins Tarantino). Og við Júlía fórum að prjóna, létum okkur detta í hug að sögusvið þessara tveggja samstæðu skáldsagna, Jójó og Fyrir Lísu, væri nokkurra skrefa virði. Við hófum tilraunagöngur og tímamælingar og höfum nú gengið þó nokkrum sinnum. Svo vel hefur tekist til að við köllum þetta töfragöngur. Þær eru að minnsta kosti upplífgandi sprell. Og fyrir utan allt annað prýðis meðlæti með textanum. Mótefni jafnvel líka, gegn alvöru málanna.“

Býr á ævintýralegum stað

„Frá mínum bæjardyrum er Berlín með sínu furðulega landslagi og flóknu sorgarsögum fullkomin borg fyrir söguefnið mitt – söguefni sem tók reyndar upp á því að tengjast raunveruleikanum á Íslandi og miklu víðar á stórum skala, og með ófyrirsjáanlegum hætti. Ef við höldum okkur við Ísland, þá liðu tveir mánuðir frá því að Fyrir Lísu kom út, skáldsaga sem fjallar meðfram um tilraun til að afhjúpa afkastamikinn barnaníðing, jójómanninnn – þangað til ljóstrað var upp um íslenskan jójómann með þeim hætti að það hlýtur að hafa breytt sýn allra sem fylgdust með á þennan falda heim – sem er þó rétt við nefið á okkur.  Ég viðurkenni að ég fylgdist allvönkuð með þessum uppljóstrunum og ætlaði varla að trúa mínum eigin eyrum og augum – þótt ég hefði sjálf verið að fjalla um þennan heim. En vel að merkja, í skáldskap.

Hvað sögusviðið varðar, og vettvang gönguferðanna okkar Júlíu, þá var ég svo heppin að búa á besta og ævintýralegasta stað í Berlín – í Kreuzberg – það verður að hafa það þótt þessi bæjarhluti sé nú orðið sá sem mest er í tísku. Ég naut þess að laga umhverfið í þessum bæjarhluta að þörfum skáldsagnanna minna, Jójó og Fyrir Lísu, og ég fékk í því samhengi að yrkja um suma af uppáhaldsstöðunum mínum – Viktoriapark – kirkjugarðana við Sudstern – og fáeinar vel valdar knæpur.“

Vorið er „töfratími“ í Berlín

„Þá var vorið í Berlín mér í meira lagi notadrjúgt. Þetta er árstíð sem kemur ekki með hiksti eins og íslenskt vor, heldur í hendingskasti, og umbreytingin á borginni með litum og lífi er sú mesta sem ég hef séð á byggðu bóli. Í gullinsniðs-samræmi við hugarumbreytingu Martins míns Montag.

í Jójó stendur einmitt þetta skrifað um þverhausinn þann sem hafði aldrei ætlað að binda sig: En það var þetta vorkvöld við kanalinn sem setti strik í piparsveinsreikninginn, bakkarnir þéttsetnir kátu fólki með luktir og snarl og drykkjarföng og ljósin glömpuðu í vatninu og sjálfir hundarnir voru í hægagangi í blíðu rökkrinu þegar tíminn virtist hafa dottið í sjóinn um leið og sólin ….

Hér liggur leið hans auðvitað að aðalknæpunni Ankerklause, þar sem Petra stendur fyrir utan með sitt rósavínsglas og lokkar hann óvart til sín, svo ekki verður aftur snúið.

Í aprílgöngunum okkar Júlíu verður þessi töfratími í Berlín upp runninn, líf og litir í hverju horni, og sólin skín á ferðamenn og innfædda, sem flykkjast út á stétt, ekki síst í Kreuzberg til að drekka kaffið sitt eða rósavín vorsins.“

Steinunn og Júlía munu ganga um söguslóðir bókanna tveggja sunnudaginn 21.apríl og miðvikudaginn 24. apríl. Hægt er að skrá sig á fésbókarsíðu þeirra (smellið hér og hér fyrir nánari upplýsingar).

TENGDAR GREINAR: Júlía á heimavelli í Berlín
HÓTEL: Frítt freyðivín í Berlín –  5% afsláttur af hótelíbúðum í Berlín
VEGVÍSIR: Berlín

 

 

Nýtt efni

Áður en skemmtiferðaskipin taka að fylla götur Ísafjarðar af forvitnum ferðalöngum eru tvær helgar að vori sem fylla bæinn af heldur ólíkum hópum fólks. Sú fyrri er páskahelgin þegar tónlistarfólk og áhangendur þeirra þyrpast í bæinn til að taka þátt í rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, og sú síðari er Fossavatnshelgin, sem fór fram …

Tekjur Finnair drógust saman um tvö prósent á fyrsta fjórðungi ársins þrátt fyrir að finnska flugfélagið hafi aukið framboðið. Skýringin á samdrættinum liggur í verkföllum, verri sætanýtingu og lægri tekjum af fraktflutningum samkvæmt uppgjöri félagsins sem birt var í morgun. Rekstrarkostnaður Finnair á fyrsta ársfjórðungi var á pari við sama tímabil í fyrra og tapaði …

Allt þar til að Boeing Max krísan hófst, í ársbyrjun 2019, framleiddi Boeing fleiri þotur en keppinauturinn, Airbus. Kyrrsetningar og endurteknir framleiðslugallar hafa hins vegar orðið til þess að hægt hefur á framleiðslunni í verksmiðlum Boeing og eftirspurnin minnkað. Í fyrra framleiddi Airbus 735 þotur en Boeing 528 og mun bilið að öllu óbreyttu breikka …

Fataverslunin Húrra Reykjavík opnar í brottfararsal Keflavíkurflugvallar í vor og verður þar boðið upp á úrval af fatnaði og skóm frá vinsælum vörumerkjum fyrir farþega á leið úr landi. „Við erum að stíga stór skref með opnun þessarar nýju og glæsilegu verslunar, sem á sér stað í tilefni af 10 ára afmæli fyrirtækisins. Þetta er …

MYND: ÓJ

„Þetta er ein heitasta gjafavara Íslands, það get ég sagt fullum fetum. Seljum mikið á netinu hjá okkur út um allan heim,“ segir Baldur Ólafsson, markaðsstjóri Bónus, við fyrirspurn FF7 um vinsældir burðarpoka Bónus meðal ferðamanna.  Áberandi er við verslanir Bónus í miðborginni að ferðamenn kaupa þar gjarnan marga burðarpoka úr endurefni efni sem skarta …

Koffínlausar kaffibaunir eru hefðbundnar kaffibaunir þar sem beiskjuefnið og örvandi hlutinn koffín hefur verið fjarlægt. Útbreiddasta og ódýrasta ferlið við að losa baunirnar við koffínið er hins vegar orðið umdeilt þar sem efnasambönd sem við það eru notuð eru nú tengd við ýmsa heilsufarskvilla.Hægt er að beita nokkrum aðferðum við að losa kaffibaunir við koffín. …

Þrjátíu og átta trilljónir er tala sem er svolítið erfitt að skilja. Trilljón er notað í Bandaríkjunum yfir það sem við Íslendingar köllum billjón, og billjón er þúsund milljarðar, eða milljón milljónir. Á núverandi gengi eru 38 trilljónir Bandaríkjadala sama og 5.320 billjónir íslenskra króna, eða 5,3 milljón milljarðar.  Það er gott að hafa þetta …

Borgaryfirvöld í Lissabon hafa samþykkt að hækka gistináttagjald úr 2 í 4 evrur. Gjaldtaka nær ekki til tjaldstæða. Þá hefur komugjald á skipafarþega verið hækkað úr 1 í 2 evrur. Tillaga um að hækka það gjald í 4 evrur var felld.  Lusa-fréttastofan hefur eftir Carlos Moedas, borgarstjóra, að það sé „sanngjarnt fyrir borgina og íbúa …