Samfélagsmiðlar

Gengið með Steinunni um Berlín

Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur tekur upp þráðinn frá því haust og býður fólki að ganga með sér um söguslóðir bóka sinna í Berlín. Steinunn sagði Túrista frá gönguferðunum, bókunum og borginni.

„Þetta byrjaði allt á því að við Júlía Björnsdóttir vorum að slæpast í Kreuzberg með vinum. Og ég fór að segja frá Ankerklause, knæpunni við kanalinn, þar sem söguhetjan mín, Martin Montag, geislalæknir, hittir fyrst Petru konuna sína, í miðju Berlínarvori. (Líklega hittast allir á þessari súper og svolítið óhrjálegu knæpu, því það kom síðar í ljós að hún er uppáhaldsstaður Quentins Tarantino). Og við Júlía fórum að prjóna, létum okkur detta í hug að sögusvið þessara tveggja samstæðu skáldsagna, Jójó og Fyrir Lísu, væri nokkurra skrefa virði. Við hófum tilraunagöngur og tímamælingar og höfum nú gengið þó nokkrum sinnum. Svo vel hefur tekist til að við köllum þetta töfragöngur. Þær eru að minnsta kosti upplífgandi sprell. Og fyrir utan allt annað prýðis meðlæti með textanum. Mótefni jafnvel líka, gegn alvöru málanna.“

Býr á ævintýralegum stað

„Frá mínum bæjardyrum er Berlín með sínu furðulega landslagi og flóknu sorgarsögum fullkomin borg fyrir söguefnið mitt – söguefni sem tók reyndar upp á því að tengjast raunveruleikanum á Íslandi og miklu víðar á stórum skala, og með ófyrirsjáanlegum hætti. Ef við höldum okkur við Ísland, þá liðu tveir mánuðir frá því að Fyrir Lísu kom út, skáldsaga sem fjallar meðfram um tilraun til að afhjúpa afkastamikinn barnaníðing, jójómanninnn – þangað til ljóstrað var upp um íslenskan jójómann með þeim hætti að það hlýtur að hafa breytt sýn allra sem fylgdust með á þennan falda heim – sem er þó rétt við nefið á okkur.  Ég viðurkenni að ég fylgdist allvönkuð með þessum uppljóstrunum og ætlaði varla að trúa mínum eigin eyrum og augum – þótt ég hefði sjálf verið að fjalla um þennan heim. En vel að merkja, í skáldskap.

Hvað sögusviðið varðar, og vettvang gönguferðanna okkar Júlíu, þá var ég svo heppin að búa á besta og ævintýralegasta stað í Berlín – í Kreuzberg – það verður að hafa það þótt þessi bæjarhluti sé nú orðið sá sem mest er í tísku. Ég naut þess að laga umhverfið í þessum bæjarhluta að þörfum skáldsagnanna minna, Jójó og Fyrir Lísu, og ég fékk í því samhengi að yrkja um suma af uppáhaldsstöðunum mínum – Viktoriapark – kirkjugarðana við Sudstern – og fáeinar vel valdar knæpur.“

Vorið er „töfratími“ í Berlín

„Þá var vorið í Berlín mér í meira lagi notadrjúgt. Þetta er árstíð sem kemur ekki með hiksti eins og íslenskt vor, heldur í hendingskasti, og umbreytingin á borginni með litum og lífi er sú mesta sem ég hef séð á byggðu bóli. Í gullinsniðs-samræmi við hugarumbreytingu Martins míns Montag.

í Jójó stendur einmitt þetta skrifað um þverhausinn þann sem hafði aldrei ætlað að binda sig: En það var þetta vorkvöld við kanalinn sem setti strik í piparsveinsreikninginn, bakkarnir þéttsetnir kátu fólki með luktir og snarl og drykkjarföng og ljósin glömpuðu í vatninu og sjálfir hundarnir voru í hægagangi í blíðu rökkrinu þegar tíminn virtist hafa dottið í sjóinn um leið og sólin ….

Hér liggur leið hans auðvitað að aðalknæpunni Ankerklause, þar sem Petra stendur fyrir utan með sitt rósavínsglas og lokkar hann óvart til sín, svo ekki verður aftur snúið.

Í aprílgöngunum okkar Júlíu verður þessi töfratími í Berlín upp runninn, líf og litir í hverju horni, og sólin skín á ferðamenn og innfædda, sem flykkjast út á stétt, ekki síst í Kreuzberg til að drekka kaffið sitt eða rósavín vorsins.“

Steinunn og Júlía munu ganga um söguslóðir bókanna tveggja sunnudaginn 21.apríl og miðvikudaginn 24. apríl. Hægt er að skrá sig á fésbókarsíðu þeirra (smellið hér og hér fyrir nánari upplýsingar).

TENGDAR GREINAR: Júlía á heimavelli í Berlín
HÓTEL: Frítt freyðivín í Berlín –  5% afsláttur af hótelíbúðum í Berlín
VEGVÍSIR: Berlín

 

 

Nýtt efni

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …