Hafðu þetta í huga ef þú ætlar að bóka flug hjá Ryanair

Stærsta lággjaldaflugfélag Evrópu býður oft upp á mjög ódýra miða en farið getur hæglega orðið dýrt þar sem aukagjöldin eru oftar en ekki í hærri kantinum.

Það er margt óhefðbundið við Ryanair. Til dæmis fá farþegar ekki úthlutuð sæti og vel er fylgst með því að fólk taki aðeins eina tösku eða poka með sér um borð. Hér eru fimm atriði sem þú skalt hafa bakvið eyrað ef þú ætlar að bóka flug með írska félaginu.

Handfarangur

Fargjaldið getur tvöfaldast hjá Ryanair við það eitt að innrita farangur því félagið rukkar 2300-6900 kr (15-45 evrur) fyrir hverja tösku. Þeir sem vilja komast hjá þessu gjaldi þurfa að passa upp á að allur handfarangur komist ofan í eina tösku, stærð hennar sé innan ramma Ryanair og hún sé ekki þyngri en 10 kíló. Við öll brottfararhliðin eru standar þar sem hægt er að kanna hvort farangurinn uppfylli kröfur félagsins. Ef hann gerir það ekki þá er refsingin 9150 krónur (60 evrur). Mörg flugfélög sjá í gegnum fingur sér ef farþegar eru einnig með fríhafnarpoka eða litlar töskur, t.d. fyrir tölvur eða myndavélar. Hjá Ryanair má ekki taka neitt aukalega nema greiða fyrir.

Sætisval og fremst í röð

Það er ekki hægt að taka frá sæti í vélum Ryanair nema að borga fyrir. Aðeins þær raðir þar sem fótarýmið er meira eru til sölu og kostar sætisvalið 1500 krónur (10 evrur). Hins vegar er hægt að borga fyrir að ganga um borð á undan öðrum og tryggja sér gott sæti eða við hlið ferðafélaganna. Það kostar 1000 krónur (7 evrur).

Drykkir um borð

Fljótandi veitingar eru í dýrari kantinum hjá Ryanair og ekkert er frítt. Hálfur lítri af vatni kostar 460 krónur (3 evrur) hjá Ryanair og kaffibollinn einnig. Til samanburðar rukkar Wow Air 250 krónur fyrir vatnsflöskuna. Dós af Heineken er á 760 krónur hjá Írunum (5 evrur) en bjórinn kostar 600 kr. hjá Icelandair og 650 kr. hjá Wow. Verðlagning á mat er hins vegar álíka og hjá íslensku félögunum.

Flugvellir

Ryanair segist fljúga til Brussel en lendir í Charleroi sem er nokkuð frá höfuðborg Belgíu og mörg fleiri dæmi eru um þess háttar skekkjur. Það borgar sig því að ganga úr skugga um hvar félagið lendir í raun og veru áður en flugið er bókað því það getur verið tímafrekt og dýrt að koma sér frá flugvellinum og á áfangastað.

Brottfararspjöld

Ef þú gleymir að prenta út brottfararspjaldið að lágmarki 4 tímum fyrir brottför þarftu að borga 10.700 krónur (70 evrur) fyrir að láta gera það á flugvellinum. Það munar um minna.

HÓTEL: Gerðu verðsamanburð og bókaðu hagstæðasta verðið