Hér færðu gott kaffi í Stokkhólmi

Kaffið í Svíþjóð er ekki ódýrt í íslenskum krónum talið. Túristi hefur þrætt kaffihúsin í Stokkhólmi og mælir með þessum stöðum fyrir þá sem vilja fá kaffi sem er peninganna virði.

Sænskar kaffihúsakeðjur eins og Wayne´s Coffee og Espresso House hafa náð svo góðri stöðu á sínum heimamarkaði að risinn Starbucks leggur ekki í slaginn. Það er þó miklu frekar staðsetning kaffihúsanna en gæði drykkjanna sem skýra yfirburði keðjanna.

Hér eru fjögur kaffihús í Stokkhólmi sem eiga það sammerkt að bjóða upp á framúrskarandi gott kaffi og rukka ekki meira fyrir bollann gert er í útibúum þeirra stærstu.

Drop Coffee – Wollmar Yxkullsgatan 10

Það er nýlega búið að stækka þetta vinsæla kaffihús á Södermalm töluvert enda margir sem vilja svala þorstanum hér þrátt fyrir gott úrval af stöðum allt í kring.

Uppáhellingur („bryggkaffe“) sem er látinn drjúpa hægt niður í könnu nýtur mikilla vinsælda og heldur kaffibarþjónunum við efnið því þeir þurfa að hella jafnt og þétt ofan í trektirnar. Þeir gestir sem kjósa heldur kaffi að hætti Ítala fá það úr nýrri Synesso vél en þær þykja það flottasta í kaffigeiranum í dag.

Mellqvist – Rörstrandgatan 2

Það er ys og þys á Mellqvist, einu vinsælasta kaffihúsinu í Vasastan, rétt hjá Sankt Eriksplan. Á stéttinni fyrir utan eru alltaf einhverjir með bolla og bollur og innandyra er alla jafna setið á flestum borðum. Þjónustan er eldsnögg og því þarf ekki að bíða lengi eftir rótsterkum Portland espresso eða bæjarins besta cortado (Mellqvist kallar þann spænska espressino).

Kaffeverket – Snickarbacken 7

Innst í Snickarbacken, litlu húsasundi skammt frá Stureplan, er gengið inn í gamalt hesthús lögreglunnar sem nú hýsir kaffihús og verslun með föt, listmuni og annað fínerí. Eini glugginn á þessu langa og mjóa húsnæði er sá sem er í útidyrahurðinni. Birtan að utan lýsir því aðeins upp fremsta hlutann. Stórir kertastjakar og kastarar, sem lýsa upp myndirnar á veggjunum, sjá um afganginn. Þetta er því óvenjulegur staður en mjög hlýlegur og sérstaklega þegar kalt er í veðri. Kaffið er virkilega gott, kardemommubollurnar sömuleiðis og svo er rækjusamlokan lostæti.

Sosta espresso bar – Sveavägen 84

Þó þetta sé hugsanlega minnsta kaffihúsið í borginni þá veitir ekki af tveimur kaffibarþjónum bakvið barinn. Kúnnarnir koma nefnilega jafnt og þétt inn af götunni, stilla sér upp við barborðið og panta sér ítalskt kaffi og sætabrauð. Hinir vingjarnlegu og spariklæddu þjónar eru eldsnöggir að hafa allt til. Og líkt og á Ítalíu þá borgar þú minna fyrir kaffið hér en á stöðum þar sem þjónað er til borðs. Einfaldur macchiato kostar t.d. 266 krónur (14 sænskar).

HÓTEL: Gerðu verðsamanburð á hótelum í Stokkhólmi
TENGDAR GREINAR: Vegvísir Stokkhólmur