Herskáir N-Kóreumenn valda íslenskum ferðamönnum áhyggjum

Þeim fer nú fjölgandi sem kjósa að láta utanríkisráðuneytið vita af ferðalögum sínum til Kóreuskagans og nágrennis.

Þegar ófremdarástand skapast í útlöndum hafa stjórnvöld hér á landi samband við þá íslensku ríkisborgara sem kunna að vera staddir á viðkomandi svæði. Það er þó ekki sjálfgefið að til séu upplýsingar um alla þá Íslendinga sem búa í útlöndum eða eru á ferðalagi þar sem hættan er. Á heimasíðu utanríkisráðuneytisins geta þeir sem eru á leiðinni út í lengri eða skemmri tíma skráð upplýsingar um ferðalög sín og þannig auðveldað starfsmönnum utanríkisþjónustunnar að hafa upp á sér ef nauðsyn krefur.

Samkvæmt upplýsingum frá borgaraþjónustu ráðuneytisins koma fleiri skráningar í þennan gagnagrunn þegar ófriðlega lítur út í einhverjum löndum. Þá hringir fólk í ráðuneytið til að afla sér upplýsinga og því er þá ráðlagt að skrá ferðaplön sín í grunninn. Þessa dagana eru það herskáar yfirlýsingar N-Kóreumanna sem valda ferðamönnum á leið til landanna í kring áhyggjum og hefur skráningum því fjölgað.

Ekki varað við Kóreuskaganum

Utanríkisráðuneyti nágrannalandanna gefa út viðvaranir vegna ferðalaga til ákveðinna svæða þegar ástæða þykir til. Ekkert landanna hefur ráðlagt þegnum sínum að halda sig fjarri Kóreuskaga en á vef breska utanríkisráðuneytisins eru þeir sem hyggjast heimsækja N-Kóreu beðnir um að skrá sig í breska sendiráðinu í höfuðborginni Pyongyang. Þar kemur þó fram að árlega heimsæki sárafáir breskir ferðamenn landið.

BÍLALEIGA: Hvað kostar að leigja bíl á Spáni í sumar?
HÓTEL: Gerðu verðsamanburð á hótelum út um allan heim

 

Mynd: michaeljesusday/Creative Commons