Hvað kostar að taka frá flugsæti?

Hjá meirihluta flugfélaganna sem fljúga héðan í sumar þarf að borga fyrir að taka frá ákveðið sæti.

Gluggasæti í fyrstu röð eru vinsælust og fæstir flugfarþegar vilja sitja í miðjunni. Þetta er meðal þess kom fram í könnun sem Easy Jet lét gera áður en félagið tók upp sérstakt sætisgjald í lok síðasta árs. Sá sem vill vera viss um að hann fái sæti á uppáhaldsstaðnum sínum og við hlið ferðafélaganna getur tekið frá sæti sér að kostnaðarlausu þegar farmiði er bókaður hjá félögum eins Delta, Icelandair, SAS og Lufthansa. Tíu af þeim fimmtán flugfélögum sem halda uppi millilandaflugi frá Keflavík taka hins vegar greiðslu fyrir þessa þjónustu og það getur verið erfitt fyrir þá sem ferðast með börn að komast hjá þessum aukagjöldum. Því fáir vilja taka áhættu á því að fjölskyldan sitji dreifð um flugvélina.

Rúmlega þrjú þúsund krónur, aðra leið

Hjá flestum félögunum eru sætin misdýr, þar sem fótaplássið er mest er verðið hæst. Þannig kosta dýrustu sætin hjá Airberlin 3.040 krónur (20 evrur) sem er hæsta gjaldið hér á landi samkvæmt athugun Túrista. Wow Air kemur þar á eftir með aukagjald upp á 2.990 krónur fyrir sætin með mesta plássið. Þau kostuðu hins vegar 1.490 krónur síðasta sumar og hafa því tvöfaldast í verði. Lægsta gjaldið er hjá Easy Jet eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.

Mismunandi mikið rými

Þegar Wow Air hóf að selja farmiða í nóvember árið 2011 voru 168 sæti í Airbus A320 leiguvélum fyrirtækins, „rýmra verður um farþega en tíðkast hefur hjá lággjaldaflugfélögum“, stóð í tilkynningu félagsins að því tilefni. Fyrir tveimur vikum lét forstjóri félagsins hins vegar hafa það eftir sér á Vísi að með tilkomu nýrra Airbus A320 véla yrði sætisbilið aukið því sætunum yrði fækkað úr 180 í 174. Aðspurð um þetta ósamræmi segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi Wow Air, að félagið hafi fjölgað sætunum upp í 180 fyrir um tveimur mánuðum síðan en þeim hafi nú verið fækkað um sex.

Samkvæmt könnun sem Túristi gerði, í lok síðasta árs, á bilinu á milli sætaraða hjá flugfélögunum þá er þrengst hjá Transavia eða 71 cm. Farþegar Icelandair ganga að breiðasta bilinu vísu, 81 cm, en fótaplássið um borð í vélum Delta, SAS og WOW Air getur einnig verið svo langt (sjá nánar hér).

Verð á sætum þegar bókaður er flugmiði í ódýrasta verðflokki:

Félag Sætisval
Airberlin 1520 – 3040 kr.
Air Greenland Innifalið
Delta Innifalið
EasyJet 608-2280 kr.
German Wings 1216-2280 kr.
Icelandair Innifalið
Lufthansa Innifalið
Fly Niki 1520 – 3040 kr.
Norwegian 1165 kr.
Primera Air 1000-2500 kr.
SAS Innifalið
Thomas Cook 1520 kr.
Transavia 1140-2280 kr.
Vueling 760-2280 kr.
Wow Air 990-2990 kr.

Verð erlendu félaganna eru umreiknuð í krónur m.v. gengið 25.apríl.

Fylgstu með Túrista á Facebook

HÓTEL: Gerðu verðsamanburð á hótelum
TILBOÐ: 10% afsláttur af gistingu í París

Mynd: Kristin S.Lillerud/Norwegian