Icelandair ekki hluti að norrænu risaflugfélagi

Sérfræðingar í fluggeiranum sjá fyrir sér sameiningu þriggja stærstu flugfélaga Norðurlanda en telja Icelandair ekki passa inn í nýja félagið.

Það gengur allt í haginn hjá Norwegian flugfélaginu og á fyrsta ársfjórðungi þessa árs fjölgaði farþegum þess um nærri þrjú hundruð þúsund miðað við sama tíma í fyrra. Farþegum SAS fækkaði hins vegar um tvö hundruð þúsund og óhætt er að fullyrða að stór hluti þeirra hafi farið yfir til Norwegian því félögin eru í samkeppni á sex af hverjum tíu flugleiðum líkt og kom fram hér á síðunni nýverið.

Barátta þessara tveggja félaga er hörð en SAS er þó enn langstærsta flugfélag Norðurlanda. Þar á eftir koma Norwegian og Finnair. Í nýlegri skýrslu greiningafyrirtækisins CAPA er þeim möguleika velt upp að þessi þrjú félög kynnu að sameinast í framtíðinni og mynda þannig risastórt norrænt flugfélag. Icelandair er hins vegar ekki talið eiga erindi í hópinn.

Aðspurður um ástæður þess segir skýrsluhöfundur í samtali við Túrista að Ísland sé sérstakur markaður, mun minni en aðrir norrænir og afskekktari. Flugsamgöngur séu Íslendingum því mjög mikilvægar. Hann telur að þrátt fyrir tilkomu norræns risaflugfélags þá verði áfram pláss fyrir önnur félög á markaðnum eins og Icelandair.

NÝJAR GREINAR: Steinunn Sigurðardóttir gengur um Berlín

Mynd: Icelandair