Keflavíkurflugvöllur sá 81. besti í heimi

Leifsstöð fer upp um þrjú sæti á listanum yfir hundrað bestu flughafnir í heimi.

Besta flugstöðvarbygging í heimi er álma 5 á Heathrow í London, vopnaleitin er skilvirkust í Kaupmannahöfn, maturinn á Munchen-flugvelli er bestur og Haneda í Tókýó er snyrtilegasta flughöfnin. Þetta eru niðurstöður atkvæðagreiðslu greiningafyrirtækisins Skytrax sem rúmlega tólf milljónir farþega á 395 flugvöllum tóku þátt í.

Hæstu meðaleinkunina fékk Changi flugvöllurinn í Singapúr og Incheon í Seoul í S-Kóreu lenti í öðru sæti. Schiphol í Amsterdam hneppti bronsið og þetta er annað árið í röð sem sá flugvöllur fær hæstu einkunn allra í Evrópu. Keflavíkurflugvöllur endaði í 28. sæti á Evrópulistanum og númer áttatíu og eitt á heimsvísu. Í fyrra var sá íslenski númer áttatíu og fjögur.

Líka sá fjórði besti í Evrópu

Nýverið voru birtar niðurstöður þjónustukönnunar alþjóðlegu samtakanna Airports Council International (ACI) og þar fékk Keflavíkurflugvöllur fjórðu hæstu einkunina í Evrópu. Árin 2009 og 2011 var hann í efsta sæti í Evrópu. Könnun ACI byggir á um fjórtán hundruð svörum sem flugvellirnir safna sjálfir inn. Samkvæmt upplýsingum Túrista hjá Skytrax þá fengust mun fleiri svör í könnun fyrirtækisins meðal flugfarþega hér á landi en nákvæm tala liggur ekki fyrir.

NÝJAR GREINAR: Ódýrara að bóka með stuttum fyrirvara nú en í fyrra