Krítverskar kræsingar

Krít er komin á kortið á ný hjá íslenskum ferðaskrifstofum. Á þessum veitingastöðum geta túristar fengið góðan krítverskan mat.

Í sumar geta sólþyrstir Íslendingar flogið beint til Chania á Krít. Elsti hluti þessarar næststærstu borgar eyjunnar er ákaflega fallegur. Þröngar götur liggja upp frá höfninni og þangað leita margir svangir ferðamenn frá strandbæjunum í kring á kvöldin.

Matur að hætti heimamanna

Af myndamatseðlunum að dæma leggja margir veitingamenn í Chania meira upp úr klassískum ítölskum og þýskum réttum í stað þess að elda ferskan fisk og grænmeti samkvæmt krítveskum hefðum. Þeir sem vilja alvöru Krítarmat ættu að leita uppi veitingastaðinn Portes sem stendur við Portou númer 48 frekar ofarlega í gamla bænum. Þar stendur bresk kona vörð um matarmenningu eyjaskeggja með glæsibrag og rukkar ekki meira fyrir réttina en gerist og gengur á stöðunum í kring.

Á To Karnagio (Plateia Katehaki 8) er heimamaturinn líka í hávegum hafður og grísku kjötbollurnar hittu í mark hjá útsendara Túrista.

Þeir sem vilja prófa alls kyns krítverska rétti á einu bretti ættu að setjast inn á Kouzina (Daskalojianni 25). Þar geta gestirnir fengið litla skammta af nokkrum réttum og deilt með borðfélögunum. Þessi staður er vinsæll og hefur fengið mikið hrós hjá Trip Advisor ferðavefnum.

Markaðurinn með allt það helsta

Matgæðingar verða heldur ekki sviknir af heimsókn á Agora matarmarkaðinn og þar er tilvalið að kaupa sér olífuolíu til að taka með heim eða annað góðgæti sem búðafólkið er vant að pakka inn í umbúðir sem þola hnjaskið í ferðatöskunni. Markaðurinn er líka fínn byrjunarreitur á sælkeragöngu um þennan fallega bæ.

TENGDAR GREINAR: Grikkland að hætti Egils Helgasonar

Mynd: Theophilos/CreativeCommons