Síðustu ódýru sætin á sumaráfangastaðina

Sá sem hefur ekki nú þegar fest kaup á miða til Barcelona, Mílanó eða Zurich kemst ólíklega þangað fyrir minna en sextíu þúsund krónur í sumar. Það eru hins vegar nokkuð eftir af ódýrum miðum til þessara fimm borga.

Yfir aðalferðamannatímann gefst íslenskum túristum meðal annars tækifæri á að fljúga beint til Spánar, Ítalíu, Sviss og Rússlands. Ekkert áætlunarflug er til þessara landa yfir veturinn. Af verðunum að dæma þá er mikil eftirspurn eftir flugi til borga eins og Madrídar, Barcelona, Lyon, Vínar og Mílanó. Þeir eru alla vega vandfundnir farmiðarnir þangað sem kosta undir sextíu þúsund krónum, báðar leiðir.

Hér eru þó fimm sumaráfangastaðir sem ennþá er hægt að fljúga til fyrir um fimmtíu þúsund krónur í júní, júlí og ágúst.

1. Billund

Það búa þúsundir Íslendinga á eina fastalandi Danmerkur og því vafalítið margir sem eiga leið þangað héðan. Jótland hefur líka upp á heilmikið að bjóða fyrir ferðamenn. Þar eru margar af þekktustu baðströndum Dana, sveitirnar liggja vel við höggi fyrir þá sem vilja í hjólaferðalag og svo eru margir af jósku bæjunum mjög fallegir.

Icelandair og Primera Air fljúga til Billund á Jótlandi í sumar og hjá því síðarnefnda eru enn til miðar á um 35 þúsund krónur. Icelandair er enn með nokkrar ferðir rétt undir fimmtíu þúsund krónum.

2. Brussel

Það eru kannski margir orðnir þreyttir á að heyra íslenska pólitíkusa ræða kosti og galla Evrópusambandsins í Brussel. Það er þó óþarfi að láta það slá sig út af laginu. Brussel er nefnilega mjög skemmtileg heim að sækja og þaðan er auðvelt að komast til þekktra ferðamannaborga eins og Bruges og Antwerpen.

Icelandair og Thomas Cook fljúga til Brussel í sumar. Hjá báðum eru ódýrustu miðarnir í ágúst og þá er hægt að komast til þangað fyrir um 45 þúsund krónur.

3. Sankti Pétursborg

Borg Péturs mikla hefur lengi verið talin ein fegursta stórborg Evrópu og er vinsæll áfangastaður ferðamanna.

Í sumar hefur Icelandair áætlunarflug til Sankti Pétursborgar og er það í fyrsta skipti sem boðið er upp á reglulegt flug héðan til Rússlands. Flogið verður á þriðjudögum og laugardögum og er enn hægt að finna nokkrar dagsetningar þar sem flugin, báðar leiðir, kosta um fimmtíu þúsund krónur.

4. Stuttgart

Tveir af þekktustu knattspyrnumönnum Íslands gerðu garðinn frægan í tækni- og iðnaðarborginni Stuttgart í suðurhluta Þýskalands. Vegakerfi Þjóðverja er rómað og frá Stuttgart tekur aðeins um klukkutíma að keyra til baðbæjarins Baden-Baden og tæpa tvo tíma til Strassbourg.

Dótturfélag Lufthansa, German Wings, flýgur til Stuttgart frá Keflavík í sumar og líkt og undanfarin ár. Í júní, t.d. 7.-20. júní kostar flugið með innrituðum farangri um 36 þúsund krónur.

5. Vilníus

Það búa um tvö þúsund Litháar á Íslandi samkvæmt því sem kom fram í fréttatilkynningu Iceland Express í fyrra þegar félagið hóf flug til höfuðborgar Litháen.

Wow Air tekur upp þráðinn og flýgur til Vilníus einu sinni í viku og í júní er hægt að fá sæti á um 44 þúsund krónur með innrituðum farangri.

NÝJAR GREINAR: Hvað kostar að taka frá flugsæti?

Mynd: Archer10/Creative Commons