Ætla að ná fimmta hverjum farþega

Hagnaður af rekstri írska lággjaldaflugfélagsins Ryanair var umfram væntingar. Forsvarsmenn þess hafa háleit markmið fyrir næstu ár.

Ryanair er umsvifamesta félagið í flugi til og frá Írlandi, Spáni, Ítalíu og Póllandi. Forsvarsmenn þess fullyrða ennfremur að þegar kemur að ferðum innan Evrópu þá fljúgi tólf prósent farþega með írska félaginu. Vöxtur fyrirtækisins hefur verið mjög hraður og farþegum fjölgað um að lágmarki tíu af hundraði á milli ára allar götur síðan árið 2002.

Þó erfitt sé að halda í álíka vöxt, nú þegar farþegarnir eru orðnir svona margir, þá hafa stjórnendur Ryanair sett sér það markmið að ná 20 prósent allra þeirra flugfarþega sem ferðast milli evrópskra flugvalla innan fárra ára. Liður í að ná því marki er sterkari staða í Skandinavíu og Þýskalandi á kostnað SAS og Airberlin samkvæmt frétt Standby.

Meiri hagnaður

Í mars sl. lauk reikningsári Ryanair og niðurstaðan var hagnaður sem jafngildir tæpum 90 milljörðum íslenskra króna. Það er nokkru meira en búist hafði verið við samkvæmt Dagens Nyheter. Á næsta ári reikna stjórnendur Ryanair með að gróðinn aukist um fimm af hundraði og nemi hátt í 95 milljörðum íslenskra króna.

Ellefu þúsund fyrir að prenta út brottfararspjald

Írska lággjaldafélagið er meðal annars þekkt fyrir há aukagjöld og fyrir að fylgjast grannt með því að farþegarnir taki aðeins með sér eina tösku í handfarangri, líkt og fjallað var um hér á síðunni nýverið. Þá þurfa þeir sem eiga miða hjá Ryanair að prenta út brottfararspjöldin sín að lágmarki fjórum tímum fyrir brottför. Ef það klikkar þá kostar 70 evrur (um 11.050 krónur) að fá starfsmann félagsins til að prenta út spjaldið á flugvellinum. Aukagjöldin virðast þó ekki standa í farþegunum miðað við vöxt Ryanair.

HÓTEL: Gerðu verðsamanburð á hótelum og bókaðu það hagstæðasta
TENGDAR GREINAR: Hafðu þetta í huga áður en þú bókar hjá Ryanair

Mynd: Wikicommons