Bestu söfn í heimi

Blaðamenn The Times settu nýverið saman lista yfir þau söfn sem þeim þykja áhugaverðust. Hér eru þau sem voru í tíu efstu sætunum.

Arkitektar komast varla í hóp stjörnuarkitekta nema þeir hafi teiknað skrautlega safnabyggingu í miðbæ eða á gömlu hafnarsvæði. Ekkert þeirra safna sem kemst á lista ferðaskríbenta The Times í Bretlandi er hins vegar til húsa í byggingum sem þykja sérstaklega eftirtektaverðar.

Innihaldið skiptir því ennþá mestu máli og svo virðist sem Bretarnir séu ánægðir með heimahagana því söfn í London eru áberandi á listanum.

Hér eru þau sem komust á topp tíu hjá breska Tímanum yfir áhugaverðastu söfn í heimi.

1. Smithsonian í Washington DC

Nítján söfn, gallerí og dýragarður heyra undir Smithsonian stofnunina í höfuðborg Bandaríkjanna. Ekkert safn er eins stórt og að mati Bretanna þá er þetta líka besta safn í heimi. Aðgangur að langstærstum hluta Smithsonian er ókeypis og öfugt við mörg söfn þá er hér opið á mánudögum.

LESTU LÍKA: Sjá og gera í Washington

2. British Museum í London

Þegar Bretar réðu lögum og logum út um allan heim voru margir dýrgripir fluttir til Lundúna og marga þeirra má skoða á British Museum í dag.

3. Akrópólis-safnið í Aþenu

Safnið við Akrópólisarhæð hefur að geyma þá fornmuni sem fundist hafa á og við hæðina sjálfa.

4. Sir John Soane´s Museum í London

Fyrir dauða sinn árið 1837 hafði arkitektinn Sir John Soane komið því þannig fyrir að heimili hans yrði opnað almenningi. John var víst svekktur með syni sína og vildi ekki að þeir myndu erfa húsið né alla þá listmuni sem hann hafði sankað að sér í gegnum ævina.

5. American Museum for Natural History í New York

Stærsti safír í heimi er 563 karöt og sá er hér til sýnis ásamt steypireið í fullri stærð og risaeðlubeinum.

6. Imperial War Museum í London

Á Imperial War Museum verða gestirnir margs fróðari um þær styrjaldir sem Bretar hafa tekið þátt í.

7. Topkapi Palace Museum í Istanbúl

Soldánar Ottómanveldisins höfðu það feikigott eins og sjá má í höll þeirra í Istanbúl í dag.

8. Versalir við Versailles í Frakklandi

Margt af því fína sem tileyrði Lúðvík fjórtánda og hans fólki er enn að finna í þessu fræga slotti fyrir utan París.

9. Victoria & Albert Museum í London

Það er mælt með því að gestir þessa fimmtíu þúsund fermetra safns séu vel skóaðir enda þarf að ganga mikið ætli maður sér að skoða alla þá tíu þúsund muni sem þar er að finna.

10. Kínverska þjóðminjasafnið í Peking

Helstu fornminjar Kínverja eru á þjóðminjasafninu í höfuðborginni.

Meðal annarra safna á lista The Times eru Gyðingasafnið í Berlín, Vasasafnið í Stokkhólmi og Víkingaskipasafnið í Osló.

HÓTEL: Gerðu verðsamanburð og bókaðu ódýrasta hótelið