Bilið milli lággjaldaflugfélaga og þeirra hefðbundnu minnkar

Með sókn flugfélaga eins Southwest og Spirit í Bandaríkjunum og Ryanair og Easy Jet í Evrópu hafa stóru flugfélögin þurft að hagræða í rekstri. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa.

Nærri fjórir af hverjum tíu flugfarþegum í Evrópu ferðuðust með lággjaldaflugfélagi á síðasta ári. Hvergi annars staðar er hlutdeild þessara félaga jafn mikil samkvæmt úttekt bókunarfyrirtækisins Amadeus sem sagt var frá hér á síðunni nýverið.

Hefðbundin flugfélög eins og Delta og Air France hafa því þurft að hagræða hjá sér til að geta keppt við lággjaldafélögin. Samkvæmt úttekt endurskoðunarfyrirtækisins KPMG hefur þeim tekist vel upp og lækkað kostnað við hvern floginn kílómetra um nærri þriðjung síðustu ár. Munar þar mestu um nýjar og sparneyttar vélar og minni starfsmannakostnað. Bilið á milli þessara tveggja flokka hefur því minnkað verulega en sérfræðingar KPMG telja þó ekki raunhæft fyrir hefðbundin flugfélög að ætla að ná kostnaðarstigi lággjaldafélaganna. KPMG telur að munurinn á þeim félögum sem teljast til síðarnefnda flokksins muni aukast á næstunni. Sum muni einblína á lægsta verðið og þar með lægsta kostnaðinn á meðan önnur reyna að ná til sín farþegum sem vilja borga aðeins meira fyrir aukna þjónustu eins og frían farangur og sætisval.

Í skýrslu KPMG er ekki fjallað um hvernig fargjöld þessara félaga hafa þróast síðustu ár.

HÓTEL: Smelltu til að finna ódýrt hótel fyrir næstu ferð