Brátt getur fólk gist í Illums

Það eru sennilega margir Íslendingar sem hafa eytt löngum tíma í vöruhúsi Illums við Strikið, en þó ekki gist yfir nótt. Innan nokkurra ára þurfa þeir efnuðustu ekki að fara út þó búðin loki.

Strikið í Kaupmannahöfn hefur lengi lokkað til sín kaupglaða Íslendinga. Sumir þeirra hafa jafnvel keypt heilu verslanirnar. Eitt sinn voru því tvö helstu vöruhús Kaupmannahafnar, Magasin du Nord og Illums í eigu landa okkar. Í dag eru þessar risaverslanir komnar í hendurnar á nýju fólki og þeir sem ráða ríkjum í Illums hafa uppi áform um að breyta efstu hæð hússins í hótel fyrir þá fésterku.

Gera eins og í Tívolí

Haft er eftir framkvæmdastjóranum í Berlingske að ofan af fimmtu hæð sé frábært útsýni yfir miðborgina og hugmyndin sé að breyta skrifstofunum sem þar eru í dag í hótelsvítur. Samskonar lúxus gistingu er að finna í Nimb hótelinu í Tívolí og nýverið opnaði hið fornfræga fimm stjörnu Hotel d’Anglaterre á nýjan leik eftir miklar endubætur. Þeir múruðu munu því hafa í nokkur hús að vernda í Kaupmannahöfn innan fárra ára.

Gróðinn notaður í endurbætur

Hotel d’Anglaterre var áður í eigu Íslendinga en núverandi eigandi er ekkja þess sem seldi íslensku fyrirtæki hótelið á sínum tíma. Sú fer ekki leynt með þá skoðun sína að þeir hafi borgað alltof mikið fyrir slottið á sínum tíma. Hún keypti hótelið tilbaka með miklum afslætti og hefur notað hluta af ágóðanum í að endurbyggja þetta sögufræga hús við Kongens Nytorv.

TILBOÐ: Frír morgunmatur og lægsta verðið í Köben
TENGDAR GREINAR: 5 góð kaffihús í Kaupmannahöfn