Easy Jet leggur innritunarborðin niður

Þeir sem fljúga með Easy Jet eiga að innrita sig á netinu og prenta út brottfararspjöld áður en þeir mæta út á flugvöll. Félagið hætti um mánaðarmótin að innrita farþega við afgreiðsluborð.

Átta af hverjum tíu farþegum Easy Jet nota netsíðu félagsins til að tékka sig inn í flug. Forsvarsmenn fyrirtæksins ætla að fá alla til að nýta sér þessa þjónustu og hafa því lagt niður hefðbundna innritun á flugstöðvum, þar á meðal á Keflavíkurflugvelli. Farþegar Easy Jet verða því allir með tölu að innrita sig á netinu og prenta út brottfararspjöld að lágmarki tveimur tímum fyrir brottför. Þeir sem ferðast með meira en handfarangur skila töskum við afgreiðsluborð líkt og áður. Í tilkynningu frá Easy Jet segir að þessar breytingar séu liður í því að halda fargjöldum niðri og stytta biðtíma á flugvöllum.

Heyra innritunarborð brátt sögunni til?

Sjálfsinnritun er einnig algeng meðal farþega Icelandair því meira en helmingur þeirra nýtir sér sjálfsafgreiðslustöðvar eða netsíðu félagsins til að tékka sig inn. Vöxtur í netinnritun er mun hraðari en í notkun sjálfsafgreiðslustöðva samkvæmt upplýsingum frá Icelandair. Hjá Wow Air geta farþegar aðeins innritað sig með gamla laginu nema ferðinni sé heitið frá Kaupmannahafnarflugvelli því þar getur fólk notað sjálfsafgreiðslu. Talskona Wow segir að stefnt sé að því að bjóða einnig upp á þá þjónustu í Leifsstöð áður en árið er úti.

Ef það gengur eftir og vöxturinn í sjálfsafgreiðslu heldur áfram hjá Icelandair er ljóst að meirihluti farþega hér á landi munu sjálfir sjá um að innritunina. Íslensku félögin tvö ásamt Easy Jet standa nefnilega undir um 85 prósent af öllum flugferðum frá landinu yfir aðalferðamannatímann. Tilgangur innritunarborðanna verður því aðallega að taka á móti farangri.

Brottfararspjöld í símum

Þörfin fyrir að prenta út flugmiða hefur minnkað hratt síðustu ár og nú er röðin komin að brottfararspjöldunum. Mörg flugfélög gera snjallsímaeigendum það kleift að hlaða niður rafrænum brottfararspjöldum í símana sína og Easy Jet gerir nú tilraunir á nokkrum flugvöllum með þessa tækni. Farþegar þess á leið til Íslands frá London, Edinborg og Manchester geta innritað sig með snjallsímaforriti Easy Jet sem síðan vistar brottfararspjaldið inn á símann, t.d. í Passbook möppuna sem finna má í Apple símum. Félagið vonast til að þessi þjónusta verði aðgengileg á öllum áfangastöðum þess fljótlega. Icelandair býður upp á sambærilega þjónustu í gegnum farsímavef sinn, m.icelandair.is.

Fylgstu með Túrista á Facebook

BÍLALEIGA: Rentalcars lofar lægsta verðinu
HÓTEL: Gerðu verðsamanburð á hótelum og bókaðu hagstæðasta kostinn

Mynd: Easy Jet