Enn meiri verðlækkun á fargjöldum sumarsins

Fyrir viku síðan auglýsti Wow Air tilboð á flugsætum til London á 10.900 krónur. Í dag er farið komið niður fyrir tíu þúsund. Félagið hefur fjölgað ferðum sínum til Lundúna úr þremur í tólf á viku.

Síðasta vor og sumar kepptust Iceland Express og Wow Air við að undirbjóða hvort annað. Verðin fóru þó sjaldnast undir tíu þúsund krónur. Í dag auglýsir Wow Air hins vegar flugmiða til London í sumar á 9.900 krónur. Við gjaldið bætast bókunargjöld og innritaður farangur er ekki innifalinn.

Að sögn Svanhvítar Friðriksdóttur hjá Wow Air er tilboð dagsins hluti af kosningaherferð félagsins. Hún segir þó markmið Wow Air vera að bjóða lægstu verðin og því fylgjast starfsmenn þess náið með verðskrám samkeppnisaðilanna. Svanhvít segir verðlækkanir hjá Easy Jet undanfarið vera eina ástæðu þess að Wow Air hafi lækkað verðin hjá sér.

Samkvæmt vef Easy Jet er ódýrasta fargjaldið í júní til London á 9.992 krónur (63,21 evrur) en þó bara á einni dagsetningu. Annars eru verðin í kringum fjórtán þúsund krónur hjá breska félaginu fyrir far aðra leiðina. Hjá Wow Air er fjöldi ferða á undir tíu þúsund í allt sumar. En eins og áður segir eru bókunar- og farangursgjöld ekki innifalin í verðum félaganna tveggja.

Mikil fjölgun ferða

Í síðustu viku birti Túristi sína mánaðarlegu verðkönnun á fargjöldum. Niðurstaðan var sú að ódýrustu farmiðar til London í júní og ágúst hafa lækkað í samanburði við sama tíma í fyrra hjá Easy Jet, Icelandair og Wow Air. Ein af ástæðunum kann að vera sú að félögin hafa öll fjölgað ferðum sínum milli Keflavíkur og London. Engin þó meira en Wow Air sem flýgur leiðina núna tólf sinnum í viku sem er fjórum sinnum oftar en síðasta sumar.

Í byrjun næsta árs ætla Easy Jet og Icelandair að fjölga ferðunum enn frekar og þá verða farnar sex ferðir á dag frá Keflavík til flugvallanna í kringum bresku höfuðborgina. Það er tvöfalt meira en var í boði í fyrra.

Fylgstu með Túrista á Facebook

TENGDAR GREINAR: Framboð á ferðum til London tvöfaldast
HÓTEL: Hvar er ódýrast að gista í London?
BÍLALEIGA: Rentalcars lofar lægsta verðinu

Mynd: Visit London