Farmiðar til London lækka mikið milli ára

Að jafnaði er flogið fimm sinnum á dag frá Keflavík til höfuðborgar Bretlands sem er aukning um eina ferð á dag frá síðasta sumri. Aukningin virðist hafa mikil áhrif á verðin.

Sá sem bókar í dag ferð til London í viku 32 (5. til 11. ágúst) borgar mun minna en farþegi sem var í sömu sporum fyrir ári síðan. Ódýrasta fargjald Easy Jet í þessari viku er núna 40.578 krónur en kostaði 16 þúsund krónum meira í fyrra. Lækkunin hjá breska félaginu nemur 28 prósentum. Hjá Icelandair og Wow Air er ódýrasta gjaldið í ár um fimmtungi lægra en í fyrra.

Félögin þrjú hafa öll fjölgað ferðum sínum til Lundúna og það kann að vera skýringin á þessari verðþróun. Þó ber að hafa í huga að ástæðan fyrir lágum fargjöldum Wow Air er sú að sérstök tilboðsverð félagsins, sem áttu að vera til sölu fram á hádegi í gær, eru ennþá bókanleg.

Í könnunum Túrista eru fundin ódýrustu fargjöldin, báðar leiðir, innan ákveðinnar viku og farangurs- og bókunargjöld eru tekin með í reikninginn.

Eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan eru ekki eins miklar sveiflur á fargjöldum til Kaupmannahafnar. Túristi kannaði ekki verð á farmiðum til Oslóar í fyrra og því er ekki til samanburður fyrir borgina.

Þróun fargjalda í viku 32 milli ára þegar bókað er með tólf vikna fyrirvara

5-11.ágú ’13

6-12.ágú ’12Breyting
London:
Easy Jet40.578 kr.56.676 kr.– 28%
Icelandair43.279 kr.55.160 kr.– 21,5%
Wow Air30.173 kr.37.019 kr.– 18,5%
Kaupmannahöfn:
Icelandair39.120 kr.43.150 kr.– 9,3%
Wow Air39.903 kr.39.820 kr.+0,2%
Osló:
Icelandair48.370 kr.
Norwegian44.121 kr.
SAS45.496 kr.

Á næstu síðu má sjá þróun verðgjalda í viku 24 (10. til 16. júní). Smelltu hér.