Flugrútan á sínum stað, alla vega fram á haust

Í byrjun árs var boðið út einkaleyfi á áætlunarferðum milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar. Kærur tefja málið og farþegar verða því áfram að ganga langa leið til að komast í rútur á leið í bæinn.

Í vor átti að taka í gildi einkaleyfi á áætlunarferðum milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar. Þar með yrði bundinn endi á þá samkeppni sem ríkt hefur á þessari leið undanfarið. En tvö fyrirtæki hafa sinnt akstrinum, Flugrútan á vegum Kynnisferða og Airport Express á vegum Allrahanda. Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) bauð verkið út í ársbyrjun en Kynnisferðir kærðu útboðið og er niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að vænta á næstunni. Framkvæmdastjóri SSS, Berglind Kristinsdóttir, segir í samtali við Túrista að hún eigi von óbreyttri stöðu fram á haust í það minnsta.

Rúturnar færðar burt frá flugstöðinni

Sá aðili sem hneppir einkaleyfi á akstrinum mun jafnframt fá sérstæði við komusal flugsstöðvarinnar. Allar aðrar rútur verða að bíða hinum megin við skammtímabílastæðin. Í dag er þetta sérstæði ekki í notkun sem þýðir að allir rútufarþegar þurfa að ganga yfir bílastæðin með farangurinn sinn hvernig sem viðrar.

Í fyrra nýttu um 400 þúsund farþegar sér áætlunarferðir til og frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar samkvæmt því sem kemur fram í útboðsgögnum.

HÓTEL: Hér finnur þú ódýr hótel út um allan heim
NÝJAR GREINAR: Matador skemmtigarður í Danmörku

Mynd: Wikicommons