Hefja sókn í Skandinavíu en ekki á Íslandi

Átján ára samvinnu SAS og Lufthansa er lokið. Þjóðverjarnir ætla sér stóra hluti í Skandinavíu en ætla ekki að bæta við ferðum til Íslands. Upplýsingafulltrúi Icelandair segir samstarfið við SAS vera farsælt.

Hið þýska Lufthansa er ávallt nefnt sem hugsanlegur kaupandi SAS þegar ríkisstjórnir frændþjóðanna viðra hugmyndir um að selja meirihluta sinn í félaginu.

Síðustu 18 ár hafa félögin tvö selt sæti í vélum hvors annars en nú er samstarfinu lokið. Samkvæmt frétt Checkin.dk ætla Þjóðverjarnir að nýta frelsið til að styrkja stöðu sína á heimamarkaði SAS. Lufthansa hefur hins vegar ekki í hyggju að fjölga ferðum sínum til Íslands og fljúga hingað að vetri til. Það staðfestir talskona félagsins við Túrista en Lufthansa flýgur til Keflavíkur frá þremur þýskum borgum á sumrin.

Þjóðverjarnir eru ekki þeir einu sem renna hýru auga til Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar því eins og sagt var frá í gær þá ætla forsvarsmenn Ryanair að fjölga ferðum til þessara landa.

Farsælt samstarf Icelandair og SAS

Það er ekki aðeins Lufthansa sem hefur horfið úr vinahópi stærsta flugfélags Norðurlanda síðustu misseri því sömu sögu er að segja um hið bandaríska United og Thai Airways. Það er þó ekki útlit fyrir að samvinnu SAS og Icelandair sé að ljúka. Félögin hafa unnið saman um árabil og deila meðal annars flugum (codeshare). Að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, hefur samstarfið verið farsælt og fjölmargir farþegar félagsins fljúga héðan til Kaupmannahafnar og þaðan áfram með vélum SAS. Auk þess flýgur Icelandair mörgum farþegum SAS hingað til lands.

HÓTEL: Sjáðu hvað gistingin kostar hér og þar
NÝJAR GREINAR: Þrjár rauðar og klassískar krár