Hér skaltu passa þig á vasaþjófum

vasathjofar

Því miður sitja óprúttnir einstaklingar oft um ferðamenn og við vissar aðstæður liggjum við vel við höggi.

Það setur óhjákvæmilega strik í reikninginn að vera rændur á ferðalagi. Jafnvel þó þjófurinn hafi aðeins náð litlum verðmætum. Óöryggið og vonbrigðin sem fórnarlambið finnur fyrir í framhaldinu eru mikil svo ekki sé minnst á fjárhagslega tjónið og þann tíma sem þarf að verja í að koma sér á réttan kjöl á ný.

Hér er listi yfir þá staði þar sem ferðalangar skulu vera sérstaklega vel á verði. Jafnvel þó ferðinni sé aðeins heitið til nágrannalandanna. Þjófarnir eru nefnilega víða.

Á kaffihúsi
Það er klassískt bragð hjá vasaþjófi að koma upp að hópi ferðamanna á kaffihúsi, þykjast vera viltur og leggja stórt kort yfir borðið og biðja fólk um að hjálpa sér að finna réttu leiðina. Á meðan fórnarlömbin reyna að hjálpa þeim áttavilta nappar hann símum og veskjum af borðinu undan kortinu eða vöðlar inn í kortið þegar hann tekur það tilbaka. Einnig er hætt við að töskur sem liggja á gólfi eða á bekk hverfi án þess að eigandinn taki eftir nokkru grunsamlegu.

Á flugvellinum

Rétt á meðan ferðamaðurinn stendur við afgreiðsluborð bílaleigunnar og gengur frá samningnum þá er farangurinn oft eftirlitslaus aftan við farþegann. Þá getur verið auðvelt að ná í töskuna og láta sig hverfa inn í mannfjöldann.

Á hótelinu
Innbrot á gististaði og íbúðir eru nokkuð algeng í sumum löndum. Það borgar sig því að setja það verðmætasta í öryggisbox sem eru langoftast í boði og kostar ekkert að nýta.

Á lestarstöð
Þú leggur farangurinn frá þér á meðan þú kaupir lestarmiða, t.d. í sjálfsala. Það getur tekið tíma þar sem þú kannt ekki á kerfið og ert því með hugann við verkefnið. 

Úti á götu
Vegfarandi hellir drykk á jakkann þinn og þykist vera alveg miður sín og hjálpar þér úr jakkanum. Hann þurrkar svo blettinn og tæmir vasana á meðan.

Vasar sem eru utan á buxum, t.d. hliðarvasar á skálmum eða jökkum eru ekki heppilegir fyrir verðmæti því þjófar komast auðveldlega ofan í þá. Sama gildir um hólf á bakpokum og hliðartöskum sem eigandinn sér ekki. Það borgar sig að hafa ekki of mikið á sér og stórt og þungt veski kann að vekja of mikla athygli. Þá er betra eða vera með reiðufé og kort í sitthvorum vasanum eða í innanklæðaveski. Sérstaklega ef það stendur til að vera á fjölförnum stöðum.

Við leigubíl
Þú leggur frá þér farangur við leigubílastöð en þá kemur þjófur hjólandi og tekur töskuna.

Fylgstu með Túrista á Facebook

HÓTEL: Gerðu verðsamanburð á hótelum og bókaðu hagstæðasta kostinn

Mynd: Flickr/Creative Commons