Hóteltékk: Elotis Suites á Krít

Strandbæirnir í nágrenni við Chania á Krít eru flestir byggðir upp með ferðamenn í huga. Agia Marina er þar engin undantekning en þar stingur Elotis Suites í stúf.

Þau eru í stærri kantinum hótelin sem raða sér upp við sæbrautina við Agia Marina ströndina á Krít. Á milli gististaðanna eru svo veitingahús sem stíla inn á ferðamenn sem vilja síður framandi mat. Sólarlandastemningin er alls ráðandi á þessum slóðum.

Elotis Suite er lítið hótel við strandgötuna sem hentar vel pörum sem vilja þægilega gistingu á líflegum stað þaðan sem auðvelt er að fara í dagstúra um nærsveitir og heimsækja hinn huggulega bæ Chania. Útsendari Túrista gisti nýverið á hótelinu.

Herbergin

Elotis Suites er í tveggja hæða byggingu við strandgötuna. Herbergin eru aðeins tuttugu talsins og í garðinum er sundlaug, lítil busllaug og bar þar sem boðið er upp á lifandi músík á kvöldin.

Innréttingarnar eru nokkuð í anda þess sem fólk þekkir frá strandhótelum við Miðjarðarhafið. Lýsingin er hlýleg og í sumum herbergjum eru veggirnir klæddir með steinum. Rúmin eru þægileg og baðherbergin ágæt.

Staðsetningin

Það tekur um hálftíma að keyra með strætó frá Agia Marina og inn til Chania. Þá borg er nauðsynlegt að heimsækja þó ekki nema til að fá sér ljómandi góðan krítverskan mat og skoða gamla bæinn. Gatan sem hótelið stendur við er sneisafull af veitingastöðum og strandbúðum en matseðlanir samanstanda af útlenskum réttum og lítið er gert til að bjóða upp rétti eyjaskeggja. Í brekkunum upp frá strandgötunni eru þó að finna ágætis úrval af veitingastöðum sem leggja metnað í matargerðina og bjóða t.d. upp á nýveiddan fisk, grillað kjöt og góða grænmetisrétti og meðlæti.

Verðið

Ódýrustu herbergin á Elotis Suites kosta innan við tíu þúsund krónur (62 evrur) en verðið hækkar þegar líður á júlí.

Ferð.is og Heimsferðir bjóða upp á ferðir til Krítar í sumar og hjá báðum aðilum er hægt að kaupa flug eitt og sér.

Heimasíða Elotis Suites.

TENGDAR GREINAR: Krítverskar kræsingarGrikkland að hætti Egils