Íhuga að banna áfengi um borð vegna drukkinna Rússa

Áhafnarmeðlimir Turkish Airlines þurfa reglulega að kalla til lögreglu vegna ölvaðra Rússa á leið í sólarlandaferð til Tyrklands. Rauður varalitur hefur verið bannaður um borð.

Í síðasta mánuði fór allt upp í háaloft í vél tyrkneska flugfélagsins Turkish Airlines á leið frá Moskvu. Fullur Rússi lét þá heilt fótboltalið fá það óþvegið og við komuna til Tyrklands þurfi löggan að skerast í leikinn. Dólgslæti í Rússlandsflugi Turkish Airlines eru tíð því á síðasta ári var lögreglan fengin til að sækja drukkna rússnenska ólátabelgi í vélar félagsins alls 28 sinnum.

Ástandið hefur farið versnandi það sem af er ári samkvæmt frétt Politiken og forsvarsmenn flugfélagsins íhuga nú að banna vínveitingar um borð í vélunum sem fljúga til og frá Rússlandi.

Banna rauðan varalit

Þetta yrði þó ekki í fyrsta skipti sem áfengi verður bannvarningur hjá Turkish Airlines því félagið hætti nýverið að bjóða upp á vín í innanlandsflugi. Pils flugfreyjanna voru á sama tíma gerð skósíð og þeim bannað að nota rauðan varalit. Pilsin hafa nú verið stytt á ný en bannið við rauðum varalit er enn í gildi.

Tyrkneska ríkið á 49 prósent hlut í Turkish Airlines og eru áherslubreytingar varðandi áfengi og útlit flugfreyja raktar til ríkisstjórnar landsins sem reglulega er sökuð um að vilja íslamsvæða landið.

HÓTEL: Gerðu verðsamanburð á gistingu út um allan heim

Mynd: Turkish Airlines