Loksins opnar Abba safnið

Það hefur lengi verið í bígerð að opna safn til heiðurs þekktustu tónlistarmönnum Svía.

Hugmyndin um að verða safngripur hefur víst lagst misvel í fjórmenningana sem skipuðu hina sívinsælu hljómsveit Abba. Safn þeim til heiðurs hefur þó verið lengi í bígerð í Stokkhólmi og það var ekki fyrr en Björn Ulvaeus, gítarleikari og annar lagasmiður hljómsveitarinnar, ákvað að fjármagna verkefnið að skriður komst á málin.

Á morgun opnar safnið loksins og sænska pressan hefur fylgst náið með framvindu mála. Myndir af kvartettinum hafa því prýtt síður blaðanna síðustu misseri og einskonar Abba æði hefur runnið á landann.

Saumaklúbbarnir til Stokkhólms

Björn, Benny, Agnetha og Anni-Frid hafa öll ánafnað safninu persónulega hluti, t.d. búninga og ljósmyndir og aðdáendur Abba ættu því ekki að sjá á eftir tæpum fjögur þúsund krónum (195 sænskar) í aðgangseyri. Ferðamálafrömuðir eru sannfærðir um að safnið verði vítamínssprauta fyrir ferðaþjónustu borgarinnar og sennilega er óhætt að fullyrða að fleiri íslenskir saumaklúbbar muni líta hýru auga til Stokkhólms en áður.

Abba The Museum er til húsa á Djurgården eyjunni í miðborg Stokkhólms, stuttan spöl frá Vasa skipinu, Junibacken hennar Astrid Lindgren og Gröna Lund skemmtigarðinum.

TENGDAR GREINAR: Það helsta í Stokkhólmi í vegvísi TúristaHér færðu gott kaffi í Stokkhólmi

Mynd: Bengt H Malmqvist©Premium Rockshot