Matador skemmtigarður í Danmörku

Meira en milljón Danir horfðu á endursýningar á hinum aldarfjórðungs gömlu Matador þáttum í vetur. Eftir tvö ár geta aðdáendur þáttanna spókað sig á götum hins ímyndaða bæjar Korsbæk.

Frændur okkar Danir hafa lengi kunnað þá list að búa til gott sjónvarpsefni og bíómyndir. Árið 1978 voru fyrstu þættir Matador sýndir í dönsku sjónvarpi og nutu þeir mikilla vinsælda og líka hér heima. Í Matador er fylgst með lífinu í bænum Korsbæk frá millistríðs árunum og þar til bæjarbúar geta á ný um frjálst höfuð strokið. Þættirnir eru því fín innsýn í líf Dana á hernámsárunum og ekki síður á stéttaskiptinguna sem þar ríkti. En ein aðalsöguhetja þáttanna, stórkaupmaðurinn Mads Skjern, þarf að hafa lengi fyrir því að komast í samkvæmi yfirstéttarinnar í bænum þó hann fyrir löngu keypt allt það sem hann vill eignast í Korsbæk. Með helstu hlutverk í þáttunum fóru margir af þekktustu leikurum Dana, þar á meðal Gitte Nørby.

Fá ekki nóg

Þættirnir um Matador voru tuttugu og fjórir talsins og hver og einn er meira en klukkutími að lengd. Þrátt fyrir umfangið eru þeir reglulega teknir til sýninga á nýjan leik í Danska ríkissjónvarpinu. Og enn þann dag í dag eru undirtektir áhorfenda það góðar að landsleikir í fótbolta fá ekki álíka áhorf og þessir gömlu þættir. Það er því kannski ekki að undra að forsvarsmenn Bakken skemmtigarðsins, í útjaðri Kaupmannahafnar, sjái sér leik á borði og ætli að reisa 2500 fermetra eftirlíkingu af sögusviði þáttanna þar sem gestum gefst færi á að setjast inn á öldurhús bæjarins, fá sér vínarbrauð í borgaralegri stofu og rölta niður aðalverslunargötuna fram hjá stórmagasíni Skjern.

Samkvæmt frétt Politiken opnar Matador í Bakken sumarið 2015 en þeir sem vilja koma sér í gírinn geta horf að upphafsstef þátta hér að neðan en lagið er eftir Bent Fabricius-Bjerre, einn vinsælasta lagahöfund Dana. Stefið er auðvitað löngu orðið klassíker í Danmörku, líkt og dönskukennsluvalsinn hans Magnúsar Eiríkssonar er hér á landi.

TILBOÐ: Frír morgunmatur í Kaupmannahöfn

Mynd: Danmarks Radio