Mismunandi takmarkanir á handfarangri

Hjá sumum flugfélögum má handfarangurinn í mesta lagi vega 8 kíló en hjá öðrum eru mörkin sett við tíu. Fríhafnarpokar eru misvel séðir hjá félögunum.

Átta af þeim fimmtán félögum sem fljúga frá Keflavík í sumar rukka fyrir innritaðan farangur. Það eru því vafalítið margir sem ætla að reyna að ferðast létt í sumar og þá er nauðsynlegt að kynna sér hvaða reglur gilda hjá félögunum til að komast hjá háum aukagjöldum.

Allt í eina tösku

Breska lággjaldaflugfélagið Easy Jet flýgur nú frá Keflavík til þriggja breskra borga. Á heimasíðu félagsins er þeim tilmælum beint til farþega að pakka öllum handfarangri ofan í eina tösku og sömu sögu er að segja um Lufthansa. Hjá Icelandair og Norwegian má handfarangurstaskan í mesta lagi vega 10 kíló og auk þess má fólk taka með sér „lítinn hlut til persónulegra nota“, eins og það er orðað á heimasíðu Icelandair. Aðspurður um nánari útlistun á því við hvað væri átt segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, að lítill persónulegur hlutur geti augljóslega verið næstum hvað sem er. En hugsunin er sú að um sé að ræða lítla handtösku, bók, innkaupapoka eða vatnsflöskur úr fríhöfn.

Engin takmörk á fríhafnarvarningi

Á heimasíðu Wow Air segir að hver gestur megi hafa með sér eina tösku í handfarangri, auk fríhafnarpoka og hámarksþyngd handfarangurs sé 8 kg. Innkaupapokarnir eru þó ekki inni í þessum átta kílóum, eins og skilja mætti textann, því í svari frá Wow segir að hámarksþyngdin eigi aðeins við töskur og farþegum sé frjálst að versla að vild í fríhöfninni. Hið fransk-hollenska Transavia, sem flýgur hingað frá París, er ekki eins sveigjanlegt því þar má aðeins taka með sér aukalega einn innkaupapoka um borð.

Á meðan félögin setja mismunandi takmörk varðandi magn og þyngd handfarangurs þá er stærðin á töskunum nær alltaf sú sama, þ.e. 55x40x23cm.

BÍLALEIGA: Bókaðu bílinn hjá Rentalcars sem lofar lægsta verðinu
TENGDAR GREINAR: Hvað kostar að innrita farangur?