Þrjár rauðar og klassískar krár

Tíminn hefur staðið í stað á þessum þremur knæpum í Frankfurt, Kaupmannahöfn og Edinborg.

 

Kay´s Bar – Edinborg

„Hvað varstu að borða?“, spyr Fraser, eigandi Kay´s Bar, þegar ég bið hann um að mæla með góðum bjór snemma kvölds. Þegar ég segi honum að ég hafi nýlokið við Fish and Chips hristir hann höfuðið, skenkir botnfylli af ljósum öl í glas og réttir mér. „Þú finnur sennilega ekkert bragð, er það nokkuð? Fish and chips fer alveg með bragðlaukana. Þetta er það eina sem dugar“, segir hann og fyllir glas af dökkum, bragðmiklum bjór. Og Fraser veit hvað hann syngur enda staðið vaktina lengi á þessum rómaða hverfispöbb, smá spöl frá helstu ferðamannaslóðum skosku höfuðborgarinnar. Í hádeginu er boðið upp á snarl á Kay´s Bar (39 Jamaica Street) og Fraser segist mæla sérstaklega með Haggis í hádegismat og auðvitað er enginn djúpsteikur fiskur á matseðlinum.

Die Rote Bar í Frankfurt

Þessi kokteilbar við bakka Main hefur verið sagður „á mörkum þess að vera of svalur fyrir Frankfurt“. Það eru engar merkingar utan á húsinu og engin leið að ramba á þennan litla stað. Við dyrnar er þó merkt bjalla og ef henni er hringt birtist smókingklæddur og vatnsgreiddur barþjónn að vörmu spori. Hann vísar gestunum til sætis í litlum sal þar sem rauðir ljósaskermar dempa þau fáu ljós sem þar er að finna. Múskin heyrist varla og gestirnir hafa komið sér þægilega fyrir með hanastél. Hingað er fólk komið til að ræða málin en ekki dansa. Die Rote Bar (Mainkai 7) hefur verið á sínum stað í nærri sjö áratugi og að sögn barþjónsins er bekkurinn ávallt þéttskipaður. Verðinu er þó stillt í hóf því „allir eigi að hafa efni á góðum kokteil við og við.“

Bo-Bi Bar – Kaupmannahöfn

Gardínur heyra eiginlega sögunni til á börum Kaupmannahafnar því nú vill fólk lifa fyrir opnum tjöldum. Á hinum agnarsmáa Bo-Bi Bar (Klareboderne 14) hefur hins vegar engu verið breytt síðan þessi fyrsti ameríski bar borgarinnar var opnaður fyrir nærri hundrað árum síðan. Veggirnir eru klæddir rauðu veggfóðri, á borðunum grænir dúkar og sætin bólstruð. Það er líka dregið er fyrir gluggana og því sjást gestirnir ekki frá götunni. Einhverjir þeirra hafa kannski eitthvað að fela en flestir eru bara fegnir að geta farið inn á svona klassískan og huggulegan bar þar sem ekkert breytist, heldur ekki verðið og fyrir suma er það líka kostur að vertinn hefur aldrei heyrt minnst á reykingabann.