Sumarflug Delta að hefjast

Líkt og síðustu tvö ár mun eitt stærsta flugfélag í heimi fljúga milli Keflavíkur og New York yfir sumarmánuðina. Ekkert verður þó úr áformum félagsins að bjóða upp á nettengingu í Íslandsfluginu.

Það flugu rúmlega tuttugu þúsund farþegar með Delta Airlines til og frá Íslandi síðasta sumar. Að jafnaði voru um níu af hverjum tíu sæti skipuð samkvæmt tilkynningu.

Þriðja júní hefst Íslandsflug Delta á ný og verður flogið allt að sex sinnum í viku yfir háannatímann en fjórum til fimm sinnum í viku í byrjun júní og í lok ágúst.

Eins og fram kom hér á síðunni í vetur þá gerðu forsvarsmenn félagsins ráð fyrir því að farþegar á leið frá Íslandi til Bandaríkjanna gætu tengst internetinu um borð. Úr því verður ekki staðfestir talskona félagsins í samtali við Túrista. Hún bendir þó á að stór hluti flugflota Delta sé útbúinn þráðlausu neti og daglega noti um 400 þúsund farþegar þessa þjónustu um borð í vélum félagsins þegar flogið er innan N-Ameríku.

Þrjú félög með net

Hingað til hefur Norwegian verið eina félagið sem býður upp á nettenginu í flugi frá Keflavík. SAS og Icelandair vinna hins vegar bæði að því að netvæða flugflota sína og því er útlit fyrir að þessi þjónusta verði algeng í millilandaflugi hér þegar líður á árið.

NÝJAR GREINAR: Fimm ástæður til að heimsækja Washington