Týpurnar sem pirra flugfarþega mest af öllu

Tímaþröng, biðraðir, vopnaleit og jafnvel flughræðsla hafa áhrif á skap fólks þegar það á leið um flugvelli. Hér eru nokkur víti til varnaðar fyrir þá sem vilja síður fara í taugarnar á öðrum á flugstöðinni.

Nætursvefninn var stuttur, enginn tími fyrir morgunmat og fyrstu tímar morgunsins hafa farið í að keyra og standa í biðröðum. Það er því ekki skrítið að sumir séu viðkvæmir fyrir slóðaskap og frekju á flugvellinum. Samkvæmt 1200 manna úrtaki vefsíðunnar Skyscanner eru þetta týpurnar sem fara í þær fínustu hjá flugfarþegum.

1. Hinir ósvífnu

Fjórir af hverjum tíu þátttakendum í könnuninni segjast ekkert eins pirrandi eins og farþegar sem kunna ekki að fara í röð við innritunarborð eða brottfararhlið.

2. Hinir plássfreku

Farþegar sem setja handfarangurinn sinn á stól eða leggjast á bekk jafnvel þó öll sæti í kringum þá séu upptekin.

3. Hinir óviðbúnu

Þó slakað hafi verið á eftirliti með skóm þá þarf fólk ennþá að taka af sér belti áður en farið er í gegnum öryggishliðin. Fartölvur og ílát með vökva þarf svo að taka upp úr handfarangrinum áður en hann er skannaður. Svona hafa reglurnar verið lengi en samt eru margir sem gleyma að gera allt klárt og tefja þannig afgreiðsluna í vopnaleitinni.

4. Hinir óhagganlegu

Þeir sem ekki ná plássi í fremstu röð við farangursbeltin þurfa að biðja fólk um að víkja svo þeir geti náð í töskuna sína áður en hún fer framhjá. Sumir farþegar standa þó bara sem fastast með töskukerruna sér við hlið og taka alltof mikið pláss.

5. Hinir drukknu

Nærri tíundi hver farþegi segir þá sem nýta tímann á flugvellinum til að drekka áfengi vera mest óþolandi af öllum.

6. Hinir óskipulögðu

Yfirvigt kostar sitt og flugfélögin láta fáa sleppa í gegn með of þungar töskur. Til að komast hjá aukagjaldi endurraða sumir farþegar í töskurnar við innritunarborðið jafnvel þó tugir manna standi í röðinni fyrir aftan þá. Þess háttar framkoma þykir mörgum þreytandi.

HÓTEL: Gerðu verðsamanburð og bókaðu hagstæðustu gistinguna

Mynd: Heathrow airport