Allir í vopnaleit við komuna til Keflavíkur

Þegar flugvélar frá Rússlandi og Kanada lenda á Keflavíkurflugvelli þurfa allir farþegar um borð að fara í gegnum vopnaeftirlit. Á hinum Norðurlöndunum þurfa aðeins þeir sem millilenda að fara í gegnum þessa háttar skoðun. Skipulagi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar er kennt um.

Íslendingur sem flýgur heim frá Kanada eða Rússlandi þarf að fara í gegnum vopnaeftirlit þegar lent er í Keflavík. Á flugvöllunum í Osló, Stokkhólmi og Kaupmannahöfn er nóg fyrir heimamenn og þá sem ekki halda áfram ferð sinni að sýna vegabréf við komuna. Farþegar sem aðeins millilenda á þessum flugvöllum þurfa hins vegar að ganga í gegnum öryggishlið. Ástæðan er sú að reglur Evrópusambandsins kveða á um að farþegar sem koma frá löndum utan EES-svæðisins verði að sæta skimun áður en þeir fljúga áfram. Þetta á þó ekki við um þá sem koma frá Bandaríkjunum.

Unnið að langtímalausn

Uppbygging Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar gerir það að verkum að ekki er hægt að skilja að farþega sem eru komnir til að vera á Íslandi og þá sem millilenda samkvæmt því sem segir í svari Flugmálastjórnar við fyrirspurn Túrista. Miklum endurbótum á flugstöðinni er nú að ljúka en þrátt fyrir það verður enn ekki hægt að aðgreina hópanna tvo. En samkvæmt upplýsingum frá Isavia er unnið að langtímalausn á þessu máli.

HÓTEL: Finndu ódýr hótel út um allan heim
TILBOÐ: Morgunmatur í kaupbæti í Kaupmannahöfn

Mynd: Isavia