Aukin samkeppni í spilunum ef ekkert verður úr einkaleyfi

Samkeppniseftirlitið leggst gegn einkaleyfi á áætlunarferðum milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar. Tvö fyrirtæki sinna akstrinum í dag og fleiri kunna að bætast við ef innanríkisráðuneytið tekur undir með Samkeppniseftirlitinu.

Sex fyrirtæki tóku þátt í útboði Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum þegar lýst var eftir tilboðum í einkaleyfi á áætlunarferðum milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar. Útboðið var kært og í síðustu viku úrskurðaði Samkeppniseftirlitið að stöðva þyrfti áform um einokun í áætlunarakstri á þessari leið. Í ályktun eftirlitsins segir meðal annars að hagsmunir almennings af skilvirkri samkeppni í fólksflutningum séu fyrir borð bornir með einkaleyfinu og ferðaþjónustu á Íslandi um leið bakað alvarlegt tjón. Samkeppniseftirlitið beinir þeim tilmælum til innanríkisráðherra og Vegagerðarinnar að leita þegar í stað allra leiða til þess að stöðva áform Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum um að koma á einokun á áætlunarleiðinni milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Reykjavíkur.

Þriðji aðilinn íhugar akstur

Tvö fyrirtæki hafa sinnt akstrinum á þessari leið hingað til, Flugrútan á vegum Kynnisferða og Airport Express á vegum Allrahanda. Þórir Garðarsson, framkvæmdastóri Allrahanda, segir við Túrista að það hafi legið fyrir í nokkurn tíma að niðurstaða Samkeppniseftirlitsins myndi verða á þennan veg. Hann telur að tilboðin sem bárust í útboðinu hafi verið óraunhæf og engin geti staðið undir þeim með þeim hætti sem þarf. Hann hefur ekki trú á að verð lækki á þessari leið en sér heldur ekki fram á hækkanir.

Óskar Stefánsson, framkvæmdastjóri Bíla og fólks, sem átti næst lægsta tilboðið í útboðinu, segir að fyrirtækið sé að íhuga að hefja áætlunarferðir á milli höfuðborgarsvæðisins og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á næsta ári.

Hvað verður um einkastæðið?

Fyrir nærri ári síðan var tekið fyrir akstur áætlunarbifreiða við Leifsstöð. Flugfarþegar sem vilja nýta sér almenningssamgöngur verða því að ganga yfir skammtímabílastæðið til að komast um borð í rútu. Í útboðsgögnum á einkaleyfinu er gert ráð fyrir því að sá sem hneppir hnossið fá sérstæði við enda flugstöðvarinnar fyrir rútur sínar. Stæðið er ekki í notkun í dag og samkvæmt svari frá Isavia þá er beðið eftir ákvörðun Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, innanríkisráðuneytisins og Vegagerðarinnar varðandi næstu skref í útboðsmálunum. Þangað til verða farþegar að gera sér að góðu að ganga með farangurinn sinn í öllum veðrum yfir bílastæði til að komast um borð í áætlunarbíla.

TILBOÐ: Afsláttur á hótelum, frír morgunmatur og fleira
HÓTEL: Finndu ódýr hótel út um allan heim

Mynd: Wikicommons