Banna á ný hnífa í handfarangri

Flugöryggisstofnun Bandaríkjanna aflétti banni við litlum hnífum í farþegarýmum flugvéla í vor. Eftir kröftug mótmæli frá stéttarfélögum áhafnarmeðlima hefur verið ákveðið að setja eggvopnin á ný á bannlista.

Flugfarþegar vestanhafs mega nú taka með sér golfkylfur, skíðastafi og kjuða um borð. Bann við þess háttar íþróttarbúnaði í handfarangri hafði verið í gildi í mörg ár í Bandaríkjunum en var aflétt í lok apríl. Einnig stóð til að heimila litla hnífa í farþegarýminu. Sú ákvörðun var gagnrýnd harðlega vestanhafs, meðal annars af samtökum áhafnarmeðlima. Nú hefur Flugöryggisstofnun Bandaríkjanna (TSA) ákveðið að framlengja bann við vasahnífum og koma þannig til móts við kröfur þeirra sem starfa í háloftunum.

Strangari reglur hér á landi

Þó Bandaríkjamenn hafi heimilað margvíslegan íþróttabúnað um borð í flugvélum sínum þá eru kjuðar, golfkylfur og veiðistangir meðal þeirra hluta sem eru á bannlista Flugmálastjórnar Íslands. Þetta er ekki eina dæmið um að flugmálayfirvöld hér á landi setji strangari reglur en gilda annars staðar því eins og margsinnis hefur verið bent á hér á síðunni þá var eftirlit með skóbúnaði flugfarþega strangara hér en í Evrópu og Bandaríkjunum. Um áramót var hins vegar hætt að skylda alla til að fara úr skóm við vopnaleit og í staðinn tekið upp handahófskennt eftirlit að evrópskri fyrirmynd. Vestahafs þurfa farþegar á aldrinum 12 til 75 ára ennþá að fara úr skóm.

TILBOÐ: Frír morgunmatur í Kaupmannahöfn10% afsláttur á Krít

Mynd: TSA