Blankir kennarar valda ferðaskrifstofum vanda

Í apríl voru skólar í Danmörku lokaðir vegna kjaradeilu kennara og sveitarfélaga. Fjárhagur margra heimila þar í landi er því ekki upp á sitt besta og sum fyrirtæki finna meira fyrir því en önnur.

Dönskum ferðaskrifstofum gengur illa að koma út síðustu sætunum í sólina í Suður-Evrópu. Verð á sólarlandaferðum í næsta mánuði eru því mun lægri en vanalega að sögn sölustjóra Star Tour ferðaskrifstofunnar. Haft er eftir honum á vefsíðunni Check-in.dk að sjö af hverju níu ferðum séu bókaðar en vandinn sé að koma út þessum tveimur sem eftir eru. Hann skellir skuldinni meðal annars á bongóblíðuna sem verið hefur í Danmörku síðustu vikur. Haft er eftir upplýsingafulltrúa Bravo Tours ferðaskrifstofunnar að kennaraverkfallið í vor hafi líka áhrif. Hann segir kennara almennt vera duglega að ferðast í sumarfríinu en margir þeirra ekki fengið laun í apríl og það hafi áhrif.

Samkvæmt frétt í Politiken fengu kennarar í Danmörku greiddar verkfallsbætur á meðan á deilunni stóð en þær námu í fæstum tilvikum sömu upphæð og launin voru.

Fylgstu með Túrista á Facebook

TILBOÐ: Viltu afslátt af gistingu, frían morgunmat eða ókeypis freyðivín upp á herbergi?
HÓTEL: Einföld leit að ódýrum hótelum út um allan heim

Mynd: Sindre Sørhus/Creative Commons