Borgar sig að greiða aukalega fyrir ákveðið sæti?

Tíu af þeim fimmtán flugfélögum sem fljúga til og frá Keflavík í sumar bjóða farþegum að taka frá ákveðin sæti gegn greiðslu. Samkvæmt athugun Túrista eru fáir sem nýta sér þennan valkost hjá Wow Air en mun fleiri hjá Easy Jet.

Það vilja sennilega langflestir sitja við hlið förunauta sinna í flugi. Sérstaklega þeir sem ferðast með börn. Tíu af þeim fimmtán flugfélögum sem fljúga til og frá Keflavík í sumar rukka farþegana fyrir sætisval. Verðið er á bilinu 600 til 3000 krónur, fyrir aðra leiðina, líkt og kom fram nýlegri verðkönnun Túrista.

Það bætast því nokkur þúsund krónur við fargjald fjölskyldu sem vill vera örugg með að sitja saman. Samkvæmt athugun sem Túristi hefur gert síðustu átta daga þá voru að jafnaði átta af hverjum tíu sætum í vélum Easy Jet frátekin daginn fyrir brottför. Hjá Wow Air var hlutfallið 13,5 prósent. Í könnuninni voru aðeins skoðuð flug frá Keflavík til Lundúna. Af niðurstöðum könnunarinnar að dæma þá eru farþegar Easy Jet mun líklegri til að taka frá sæti en þeir sem fljúga með Wow Air.

Ekki á vísan að róa

Á heimasíðu Easy Jet kemur fram að ávallt sé reynt að láta farþega með sama bókunarnúmer sitja saman. En miðað við hversu mörg sæti voru frátekin síðustu daga er ekki víst að það takist öllum tilvikum. Hjá Svanhvíti Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa Wow Air, fengust þær upplýsingar að það geti komið fyrir að sætum hafi verið úthlutað áður en innritun hefst. Í þeim tilfellum sé ekki öruggt að fólk fái sæti við hlið ferðafélaganna. Hún mælir því með að fólk sem ferðast með börn taki frá sæti. Fjögurra manna fjölskylda sem pantar venjuleg sæti hjá Wow Air greiðir samtals 7.920 krónur aukalega fyrir báðar leiðir.

Milljónatekjur

Miðað við hvað það kostar að nýta sér þessa þjónustu og það hlutfall farþega sem tekur frá sæti má búast við að félögin þéni að lágmarki um 30 þúsund krónur á sætisvalinu í hverju flugi. Á fyrri hluti mánaðarins fór Wow Air 174 ferðir og út frá því má áætla að tekjur félagsins af þessari þjónustu í júní verði að lágmarki um tíu milljónir.